144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:12]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er lagt fram er samhljóða frumvarpi sem var lagt fram á vormissiri og varð ekki útrætt á Alþingi. Ég viðraði þá nokkra þætti í athugasemdum í ræðu. Mestu finnst mér skipta að leggja áherslu á að í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að felld verði út ákvæði um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd. Í skýringum við 2. gr. frumvarpsins segir að undir úrskurðarnefndina sé, samanber núgildandi lög, unnt að bera ágreining sem rís á kirkjulegum vettvangi eða ef starfsmaður þjóðkirkjunnar er borinn sökum um siðferðis- eða agabrot. Í þeim tilvikum geti hver sá sem hagsmuna á að gæta borið málið undir úrskurðarnefndina og skjóta megi niðurstöðum hennar til áfrýjunarnefndar. Síðan er rakið að með því að leggja nefndir þessar af og setja í staðinn starfsreglur um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota telji kirkjuyfirvöld að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eigi að fara.

Ég vakti máls á því í umræðu um þetta mál í fyrravetur að það væri auðvitað mikið umhugsunarefni að samþykkja að fella úr gildi lagaákvæði um tiltekin úrræði sem lúta að siðferðis- og agabrotum innan þjóðkirkjunnar án þess að ljóst sé hvaða umgjörð komi í staðinn. Þjóðkirkjan á mikið undir trausti þjóðarinnar allrar og við vitum af reynslunni að ekkert er frekar til þess fallið að grafa undan því en ótti og áhyggjur af siðferðis- og agabrotum. Því miður eru dæmi um það úr fortíðinni að slík brot hafi orðið þjóðkirkjunni til álitshnekkis og þess eru dæmi úr öðrum löndum að slík brot hafi valdið öðrum kirkjudeildum miklum erfiðleikum.

Það skiptir miklu máli í mínum huga að þessi umgjörð sé algjörlega skýr fyrir fram og að í lögum eða gildandi starfsreglum sé að finna skýr ákvæði um úrræði og leiðir sem hægt er að fara komi slík álitamál upp. Mér finnst ekki fullnægjandi að löggjafinn felli úr gildi ákvæði sem eru í lögum nú og kveða á um málsmeðferð í þessum viðkvæmu og erfiðu málum án þess að ljóst sé hvað kemur í staðinn. Í ljósi þess sem hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvörum tel ég þess vegna eðlilegt að nefndin gangi eftir því við kirkjuna við meðferð málsins að útfært verði kerfi sem komi í stað þeirra lagaákvæða sem nú eru í gildi um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd og að það liggi útfært fyrir og sé öllum ljóst áður en málið verður afgreitt frá nefndinni. Ég held að það geti orðið mikið hættuspil ef gildandi lagaákvæði verða felld úr gildi, jafnvel þótt góður ásetningur sé um að leyst verði úr því að búa til nýja umgjörð þessara mála á síðari stigum. Það er hættuspil að láta það bíða því að það getur orðið verulega mikið vandamál ef úrræðin eru ekki tiltæk þegar vandamálin koma upp. Það eitt getur skapað viðbótarálitshnekki og erfiðleika fyrir kirkjuna.

Að öðru leyti vísa ég til þess sem ég rakti í ræðu minni hér í fyrra um efnisþætti þessa máls. Ég tel þó óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum í ræðu minni nú að stöðu kirkjunnar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem er til meðferðar í þinginu. Það var rætt á fundi samstarfsnefndar Alþingis og þjóðkirkjunnar í haust. Tvennt vil ég sérstaklega nefna þar, annars vegar liggur fyrir samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í haust sem felur í sér staðfestingu á því samkomulagi að sóknargjöld verði hækkuð í skrefum til að taka á þeirri staðreynd að þau voru fyrir mistök lækkuð meira en eðlilegt var í niðurskurðarhrinunni í kjölfar hruns. Til upprifjunar skal rakið að það var að frumkvæði þáverandi hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem athugun fór fram á þessu. Í ríkisstjórn á árinu 2011 var samþykkt eftir athugun að það hefði greinilega verið farið of langt í niðurskurði sóknargjalda og ákvörðun tekin um að þau mistök yrðu leiðrétt í áföngum. Það hefur að hluta til verið gert, en það hefur ekki verið fullleiðrétt.

Í ríkisstjórnarákvörðun frá í september, ef ég man rétt, því miður er ég ekki með gögnin handtæk, er kveðið á um hækkun á næstu árum á tilteknum forsendum. Tillagan við 1. umr. fjárlaga er ekki í samræmi við þá ríkisstjórnarákvörðun. Þetta kom fram á nefndum samráðsfundi samstarfsnefndar þjóðkirkju og Alþingis. Fjárlögin endurspegla þannig ekki ríkisstjórnarákvörðunina og ég hef spurst fyrir um það í efnahags- og viðskiptanefnd og skýringin sem þar fékkst frá fjármálaráðuneytinu var að ríkisstjórnarákvörðunin hefði verið tekin eftir að fjárlagafrumvarpið fór í prentun.

Ég vil nefna þetta hér vegna þess að fjárlagafrumvarpið er enn til meðferðar í fjárlaganefnd. Við eigum eftir að sjá tillögur meiri hluta nefndarinnar. Ég hlýt að ætla að meiri hluti nefndarinnar vilji gera breytingartillögu á sóknargjaldafjárhæðinni til að hún sé í samræmi við ríkisstjórnarsamþykkt frá í september sl. um þetta samkomulag sem vel að merkja er ekki bara samkomulag sem núverandi ríkisstjórn er skuldbundin af heldur byggir líka á stefnumörkun fyrri ríkisstjórnar. Ég held að um það sé víðtæk samstaða meðal allra flokka að það sé samdóma álit þeirra sem yfir hafa farið að það hafi orðið mistök í niðurskurði sóknargjaldanna og gengið of langt miðað við það sem ætlunin var og sambærilegar stofnanir þurftu að bera.

Í annan stað vil ég rekja hér að á þessum sama samráðsfundi varð athyglisverð umræða um niðurskurð á almennum framlögum til þjóðkirkjunnar. Af hálfu kirkjunnar var rakið hversu ríflega þjóðkirkjan tók á með okkur í niðurskurði á fjárframlögum í kjölfar hrunsins. Möglunarlaust samþykkti kirkjuþing verulegar lækkanir á framlögum. Síðan var búist við að þeirri aðhaldshrinu lyki um leið og hagur vænkaðist þó að meira að segja kirkjuþingsmenn sjálfir og forsvarsmenn kirkjunnar hafi talað af svo mikilli yfirvegun um þessa vegferð að af þeirra hendi kom skýrt fram að menn gerðu ekki ráð fyrir því að þessi samdráttur yrði að fullu bættur, heldur yrði áreiðanlega til langframa um einhvern niðurskurð framlaganna að ræða.

Það sem vekur hins vegar áhyggjur, vakti áhyggjur þeirra og þeir vöktu athygli okkar á, er að áfram er haldið með niðurskurð til hinna almennu framlaga til þjóðkirkjunnar í þessu fjárlagafrumvarpi, upp á 1,5% ef ég man rétt sem er hin almenna aðhaldskrafa í fjárlögum til að rýma fyrir nýjum verkefnum. Aðhaldskrafa upp á 1,5% sem látin er gilda um allar ríkisstofnanir til þess að fjármagna ný verkefni á vettvangi ríkisins getur ekki gilt um þjóðkirkjuna nema að vegið sé að fjárhagslegu sjálfstæði hennar. Umgjörðin um kirkjuna og fjármál hennar hlýtur að fela í sér að verið sé að skila framlögum til hennar. 1,5% ættu þá að gilda um ráðstöfun verkefna innan kirkjunnar sjálfrar og skapa þjóðkirkjunni svigrúm til nýrra verkefna á sínum vettvangi. Það að leggja 1,5% aðhaldskröfu á þjóðkirkjuna til að rýma fyrir nýjum verkefnum annars staðar í ríkisrekstrinum er í beinni mótsögn við hugmyndina um fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar sem gildandi lög og samkomulag milli ríkis og kirkju um fjárhagsstöðu þjóðkirkjunnar byggir á.

Ég verð að treysta því líka að fjárlaganefnd geri breytingar milli umræðna um þennan þátt því að það skiptir mjög miklu máli til að treysta í sessi fjárhagslegt sjálfstæði kirkjunnar og mæta af sanngirni eðlilegum sjónarmiðum hennar um fjárhagsstöðu þjóðkirkjunnar.

Með öðrum orðum, bara svo ég taki þetta saman í lok máls míns, þarf að breyta fjárlagafrumvarpinu milli umræðna til að fjárveitingar vegna sóknargjalda í fjárlögum endurspegli ríkisstjórnarákvörðunina frá því í september. Það vantar einar 70 milljónir ef ég man rétt og þar þarf að bæta í. Að mínu viti er síðan algjörlega fráleitt að 1,5% aðhaldskrafan gildi um kirkjuna, það sé einfaldlega innra mál hennar að skapa svigrúm í sínum rekstri til að búa til svigrúm fyrir ný verkefni. Það á ekki að búa til 1,5% aðhaldskröfu á kirkjuna til að fjármagna önnur verkefni í ríkisrekstri eins og fjölgun aðstoðarmanna ráðherra eða önnur slík hugðarefni þessarar ríkisstjórnar.

Ég vænti þess í samræmi við grunnreglurnar sem mér finnst menn vera að reyna að fara eftir með framlagningu þessa frumvarps að þessi tvö atriði verði lagfærð í fjárlagafrumvarpi og endurspegli þar með hina réttu umgjörð fjárhagssamskipta ríkis og þjóðkirkju.