144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:25]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að benda á þessi atriði og halda uppi vörnum fyrir kirkjuna. Það er gott að hér eru málsvarar sem sýna þeirri stofnun athygli og halda uppi vörnum fyrir hana. Hv. þingmaður bendir á að það vanti upp á að í fjárlögum sé staðið við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í haust. En ég spyr hvort hann telji að þessi ríkisstjórn og síðasta ríkisstjórn hafi staðið við þann samning sem gerður var við kirkjuna. Þá er ég að tala um samning eins og hvern annan kaupsamning þar sem ríkið fékk mikið landsvæði á móti ákveðnum skyldum. Ég lít svo á að ríkinu beri að standa við samninginn eins og hvern annan, það sé bara samningsbrot ef ekki sé farið eftir því. Telur hann að þessi ríkisstjórn og þá síðasta líka hafi staðið við þann samning?