144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp enda er ég í grunninn þeirrar skoðunar að hvað varðar innra skipulag þjóðkirkjunnar sé farsælast og eðlilegast að þjóðkirkjan ráði því sem mest sjálf hvernig hún vill haga sínum málum og eðlilegt að löggjafinn hlusti fyrst og fremst á hennar sjónarmið í sambandi við það hvernig kirkjan er uppbyggð og skipar sínum innri málefnum. Það eru þó ákveðnir þættir sem eðlilegt er að þingmenn láti sig varða sem snúa að stöðu sóknarbarnanna, þess hluta almennings, meiri hluta þjóðarinnar væntanlega, sem kýs að vera félagsmenn í þessu trúfélagi. Þá berast böndin að sjálfsögðu að því hvernig farið er með mál þegar upp koma, sem tengjast sóknarmönnum eða sóknarbörnum í þjóðkirkjunni og samskiptum þeirra við starfsmenn og þegar eitthvað út af ber, enda er það kannski ekki síst það sem verið er að taka á í þessu frumvarpi.

Ég verð að segja að ég deili nokkuð skoðunum með síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Suðvesturkjördæmis, Árna Páli Árnasyni, að þegar maður lítur yfir þetta kemur röðin á þeim aðgerðum sem hér eru lagðar upp svolítið á óvart. Alþingi á að lögtaka að fella niður það skipulag sem verið hefur í sambandi við meðferð ágreiningsmála, þ.e. bæði úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd vegna agabrota eða siðferðisbrota, í þó nokkurri óvissu um hvað komi í staðinn. Það segir í umfjöllun um meginefni frumvarpsins að lagt sé til að kirkjuþing setji reglur um hvernig farið sé með slík mál. Það setji ákvæði í starfsreglur um kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar, lausn ágreiningsmála sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi og um agabrot. Þetta séu málefni sem biskup Íslands hafi svo yfirumsjón með samkvæmt 11. gr. laganna. Þessar reglur liggja hins vegar ekki fyrir og kemur fram á öðrum stað, ef ég man rétt, að meiningin sé að kirkjuþing móti þær á næsta ári.

Að einhverju leyti er hér líka um rekstrarhagræðingarmál að ræða ef marka má umfjöllun um 2. gr., því þar segir, með leyfi forseta:

„Með því að leggja nefndir þessar af og setja í staðinn starfsreglur um úrræði vegna aga- og siðferðisbrota telja kirkjuyfirvöld að unnt verði að skerpa á því í hvaða farveg kvörtunar- og kærumál eigi að fara.“ — Gott og vel. „Einnig er talið að niðurlagning nefndanna muni leiða til hagræðingar í rekstri þjóðkirkjunnar. Er þá gert ráð fyrir að á næsta ári verði starfsreglur um agamál og lausn ágreiningsmála innan kirkjunnar samdar svo að unnt verði að beita þeim við gildistöku laganna.“

Þá er mikilvægt að það gangi vel að semja reglurnar ef menn eru búnir að ákveða fyrir fram að leggja nefndirnar af. Nú er það að vísu þannig að gildistaka þessara breytinga á ekki að vera fyrr en 1. janúar 2016, en ég legg þann skilning í að nefndirnar starfi á næsta ári og hafi fullt umboð til þess að takast á við mál ef upp koma á því hinu sama ári og á að móta þessar reglur. Engu að síður hefði verið gott ef menn hefðu haft sæmilega fullvissu fyrir því að það gengi eftir sem þeir vænta, að það verði einfalt að taka á þessu með því að semja reglurnar og viðtaka þær.

Nú veit maður ekki að sjálfsögðu hvort búið er að vinna einhverja undirbúningsvinnu sem gefur mönnum tilefni til bjartsýni til þess að setja þetta svona fram. Kannski liggja þær þegar fyrir í drögum. En maður hefur samt vissar efasemdir vegna þess að hvað sem segja má um úrskurðarnefnd eða kærunefnd er það þó fastmótað skipulag, eitthvað sem er til staðar. Reglur koma ekki í staðinn fyrir það að slíkur aðili hafi það hlutverk og sé til þess bær að takast á við álitamál og að menn eigi rétt á því að skjóta þeim eða kæra til slíkrar nefndar. Er það þá þannig í raun og veru að reglur um þessi mál, málsmeðferðarreglur væntanlega, sem kirkjuþing setur og svo ábyrgð biskups á þessum málum samkvæmt 11. gr. laganna, á að vera það skipulag sem við tekur í staðinn fyrir nefndir? Eru menn endilega sannfærðir um að það verði betra og einfaldara eða skýrara verklag til þess að takast á við slík mál?

En aftur segi ég að ef kirkjan er þeirrar skoðunar og metur það svo að þessum málum sé betur borgið í þeim farvegi þá gott og vel. Hlutverk Alþingis er kannski fyrst og fremst það að hafa fullvissu og tryggingu fyrir því að vandað fyrirkomulag sé til staðar til þess að takast á við þessi mál því það er nauðsynlegt eins og dæmin sanna. Það er öllum fyrir bestu, kirkjunni sjálfri að sjálfsögðu, en það er líka nauðsynlegt að réttinda þeirra sem í hlut eiga sé gætt með því að tryggja eftir atvikum með lögum eða í slíku verklagi og skipulagi að mál sem upp koma fái vandaða og skjóta málsmeðferð. Réttur manna til að skjóta málum sínum áfram sé skýr þannig að engin hætta sé á því að þau koðni niður í einhverju skipulagi sem ekki er skilvirkt til að takast á við slík mál.

Virðulegur forseti. Þetta vildi ég segja og vísa m.a. með því til þess að ég held að hv. þingnefnd þurfi að fara vel yfir þetta og við þurfum að vita betur hver staða þessara mála er áður en kemur til lokaafgreiðslu frumvarpsins.