144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

365. mál
[11:36]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er vissulega svo að kirkjan ræður sér sjálf, ef svo má segja, og ég hef sannarlega ekkert á móti því. Mér fannst koma fram í andsvari áðan að það væri gott að kirkjan ætti sér málsvara hér á þingi. Ég held að kirkjan eigi sér 63 málsvara á þingi. Það þýðir þó ekki að fólk geti ekki horft gagnrýnum augum á það sem gert er og það sem lagt er til.

Nú er það einu sinni svo að Alþingi ber að festa í lög það sem kirkjuþing leggur til. Ég er ekki tilbúin, þótt ég sé í þjóðkirkjunni og beri mikla virðingu fyrir henni. Ég heyri það hins vegar, og ég geri ráð fyrir að margir aðrir geri það líka, að margir, sem bera einnig mikla virðingu fyrir kirkjunni og kristinni trú og öllum þeim góðu gildum sem hún stendur fyrir, eru þeirrar skoðunar að það eigi að skilja á milli ríkis og kirkju. Það þýðir ekki endilega að það að fólk sé andstætt kirkjunni. Ég tel að við sem erum á þingi þurfum að hlusta og vita hvað er sagt hér í kring og ekki vera með einhverja helgislepju af því að við erum að fjalla um málefni kirkjunnar.

Væntanlega er meginefni þessa frumvarps 4. gr., eða kannski er ekki rétt að nota orðið væntanlega. En í 4. gr. segir svo:

„Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar, þ.m.t. stjórn fjármála, nema lög mæli á annan veg.“

Þarna er alveg klárlega verið að færa fjármálavaldið inn á kirkjuþing og þá er það komið héðan í burtu. Þess vegna finnst mér rétt að árétta það sem kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar áðan, og þetta er ekki komið í lög, maður veltir fyrir sér hvort það sé rétt að ríkið geri í fjárlögum 1,5% aðhaldskröfu á kirkjuna, hvort kirkjan fái ekki þá fjármuni sem henni ber með sóknargjöldum og öðru og síðan ákveði hún sjálf hvernig hún ráðstafar þeim fjármunum. Þegar sett er svona aðhaldskrafa á kirkjuna er náttúrlega verið að skerða svolítið sjálfstæði hennar á þann hátt. Mér finnst þurfa að velta því aðeins fyrir sér hvort það sé rétt.

Hér er sem sagt verið að auka vald kirkjuþings og það er gott mál, en þá náttúrlega á kostnað yfirstjórnar kirkjunnar sem er biskupinn og biskupar.

Þetta kemur líka fram í athugasemdum við frumvarpið um tilefni og nauðsyn lagasetningar, með leyfi forseta:

„Endurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, hefur staðið yfir um nokkurn tíma en ekki hlotið afgreiðslu á kirkjuþingi enda málið umfangsmikið.“

Þess vegna er sérstaklega verið að flýta þessu með að kirkjuþing sé æðsta vald í fjármálum kirkjunnar. Það má vera gott og blessað.

Ég gat þess þegar fjallað var um þetta í vor, og ég ætla að endurtaka þær áhyggjur sem ég hef, að þarna fylgdi eitthvað með sem kalla mætti laumufarþega. Það er þetta um breytinguna á því hvernig farið er með agabrot innan þjóðkirkjunnar. Mér finnst það skipta gífurlega miklu máli og ég spyr: Af hverju hefur þá ekki verið gengið í að setja þessar starfsreglur, nánari ákvæði í starfsreglur?

Þegar þetta var rætt í vor stóð fyrir dyrum kirkjuþing árið 2014, en það er afstaðið núna. Í vor gat maður velt því fyrir sér, eða ef ég á að orða það svo þá gat maður í huga sínum leyft kirkjuþingi að njóta vafans um að starfsreglurnar, þessi nánari ákvæði um starfsreglur, yrðu þá settar á næsta kirkjuþingi. En nú er næsta kirkjuþing frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram afstaðið og nánari reglur hafa ekki verið settar.

Það er því miður svo að við höfum ástæðu til þess að vera svolítið skelkuð að því leytinu til að kirkjan er ekki og hefur ekki, ekki frekar en annars staðar, verið laus við það að innan hennar hafi gerst hlutir sem eru sorglegir og ámælisverðir. Það verður að vera alveg ljóst hvernig á að taka á slíkum hlutum.

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög erfitt og ætla að lýsa því yfir hér og nú að ég get ekki samþykkt þetta frumvarp eins og það er. Nú má ábyggilega ekki nota það orð um kirkjuna en ég ætla samt að gera það, mér finnst þetta hrokafullt. Mér finnst hrokafullt af kirkjunni að þegar hún sér þær umræður sem voru hér á síðasta þingi, sérstaklega um tvær fyrstu greinarnar í frumvarpinu, og málið er borið undir kirkjuna, innanríkisráðuneytið gerir það eins og vera ber, segir hún: Nei, það er óþarfi, bara flytja þetta óbreytt. En samt sem áður tekur hún ekki á spurningunni um hvernig eigi að taka á agabrotunum, hver séu hin nákvæmari skilyrði í starfsreglunum.

Ég segi það bara: Ég get ekki sætt mig við þetta. Ég lýsi því yfir að ég mun ekki styðja þetta frumvarp af þeim sökum. Ekki vegna þess að meira vald sé fært til kirkjuþings heldur af þeim sökum að það eigi að skilja eftir opið hvernig taka skuli á agabrotum í þjóðkirkjunni. Það finnst mér mjög slæmt og ég ætla jafnvel að nota orðið alvarlegt.

Annað í þessum lögum er eins og segir í athugasemdunum og er til að þetta passi allt inn í lögin um kirkjuna eins og þau verða þá, þannig að það eru aðallega þessi tvö atriði. Mér finnst líka rétt að segja að það var ekki svo að það væri algert samkomulag, að allir væru einu máli um þetta á kirkjuþingi, um ákvæðin sem við eigum núna að færa í lög vegna þess að þau voru samþykkt á kirkjuþingi. Það er ekki svo að þar verði ekki líka uppi ágreiningur. En þetta var niðurstaðan og það er með kirkjuþing eins og með Alþingi, eins og alltaf, á endanum er verið að skera úr ágreiningsmálum með atkvæðagreiðslu og þá er það gert og sú ákvörðun sem tekin er stendur náttúrlega. Mér finnst samt rétt að koma því til skila að það er ekki eins og þessar breytingar hafi allar verið samþykktar með lófataki, eins og stundum er sagt.

Mér finnst líka að Alþingi og kirkjan þurfi að átta sig á því, og ég held að óhætt sé að segja það, að sífellt fleiri efast um þá tilhögun sem er í landinu, að þetta sé eitt, það sé þjóðkirkja og ekki aðskilnaður þarna á milli. Þeir sem vilja halda í það fyrirkomulag þurfa þá að stíga mjög varlega til jarðar, þurfa að hugsa sig vel um hvernig þeir fara með störf sín og vald. Það skiptir mjög miklu máli.

Ég endurtek í þriðja sinn: Mér finnst 1. og 2. gr. í þessu frumvarpi næstum því óskiljanlegar, sérstaklega í ljósi þess að síðan frumvarpið var lagt fyrst fram í vor, þar sem alvarlegar athugasemdir voru gerðar við einmitt þær greinar, hefur kirkjuþing verið haldið og ekkert gerst í málunum. Það er mjög, ég held að ég ætli að nota orðið ámælisvert. Mér finnst það ámælisvert af kirkjuþingi og innanríkisráðuneytinu að reyna ekki að tala fólkið til.