144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga (Forseti hringir.)

(Forseti (ÓP): Þögn í þingsalnum.)

um örnefni sem ætlað er að koma í stað laga um bæjarnöfn og fleira, nr. 35/1953. Hér er um að ræða frumvarp sem hefur verið lagt fram á Alþingi í tvígang, annars vegar 26. febrúar 2013, þskj. 1076, 620. mál, á 141. löggjafarþingi, og hins vegar 1. apríl 2014, þskj. 832, 481. mál, á 143. löggjafarþingi. Frumvarpið hlaut í hvorugt skiptið afgreiðslu.

Nú er frumvarpið lagt fram í þriðja sinn með lítils háttar breytingum frá upphaflegu frumvarpi. Skipaður var starfshópur 8. júní 2012 sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun laga um bæjarnöfn og fleira. Hópurinn skilaði greinargerð um vinnu sína og tillögu að frumvarpi til laga um örnefni með bréfi til mennta- og menningarmálaráðherra þann 21. desember 2012. Megintillögur starfshópsins fólust í að löggjöf á þessu sviði yrði samrýmanlegri nútímabúsetuháttum og skipulagsmálum í landinu en nú er. Við vinnu starfshópsins voru tvö meginmarkmið höfð að leiðarljósi. Annars vegar örnefnavernd og hins vegar öryggissjónarmið.

Í framkvæmd hefur ferill sá sem kveðið er á um í lögum um bæjarnöfn og fleira um breytingar á heitum lögbýla ekki virkað sem skyldi og hefur iðulega leitt til þess að misræmi myndast milli þinglýstra gagna og fasteignaskrár hjá Þjóðskrá Íslands. Þá er óljóst samkvæmt gildandi lögum hvar ábyrgð á skrásetningu bæjarnafna liggur, hjá sveitarfélögum eða örnefnanefnd. Enn fremur er ekki kveðið á um boðleiðir milli stofnana, sem koma að skráningu býla, í lögum eða reglugerðinni. Ástæða þessara vankanta er fyrst og fremst breytt framkvæmd á skráningu fasteigna sem miðast við skráningu í tölvukerfi og fastmótaðan skráningarferil, samanber lög um skráningu og mat fasteigna.

Þá hefur lögbýlum og öðrum býlum utan kaupstaða, kauptúna og þorpa fjölgað mjög mikið og margir eiga tvö heimili, eitt í þéttbýli og annað í dreifbýli. Einnig eru mörg dæmi um að fólk eigi lögheimili utan kaupstaðar, kauptúna og þorpa án þess að um lögbýli sé að ræða. Samkvæmt 4. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, getur fólk aðeins átt eitt lögheimili, en bæjarnöfn sem örnefnanefnd fjallar um eru á lögbýlum þar sem fólk á lögheimili. Af þeim sökum er ekki alltaf ljóst hvort erindi sem nefndinni berast um tilkynningu um nafn á býli heyri undir verksvið hennar. Þetta hefur skapað misræmi víða í stjórnsýslunni.

Nú á dögum eru tíðar breytingar á mörkum sveitarfélaga og umdæmum sýslumanna. Mörg býli, bæði lögbýli og önnur býli í sveitum landsins, eru nú innan sveitarfélaga þar sem bæði má finna dreifða byggð og byggð í kaupstöðum, kauptúnum og þorpum. Samkvæmt hljóðan núgildandi laga eru nafngiftir býla innan þéttbýlismarka utan verksviðs örnefnanefndar. Þarna gætir misræmis milli býla í dreifbýlissveitarfélögum og býla sem tilheyra þéttbýlli sveitarfélögum.

Með vísan til framangreindra atriða er talið nauðsynlegt að ákvæði laganna verði löguð að breyttu umhverfi fasteignaskráningar og þannig komið í veg fyrir misræmi í skráningu fasteigna og tryggt að fasteignaskráin beri alltaf með sér rétta skráningu fasteigna á hverjum tíma.

Til örnefnanefndar hafa leitað aðilar sem eiga í landamerkjadeilum, t.d. þegar ágreiningur er um hvar örnefni, sem skilja að landareignir, eru staðsett. Ekki er nægilega skýrt í núgildandi lögum hvort örnefnanefnd beri að skera úr um slík atriði, en núverandi nefnd telur að það eigi að vera utan hennar verksviðs.

Í frumvarpinu er lagt til að nefndin skuli aðeins veita rökstutt álit um örnefni vegna birtingar í opinberum örnefnagrunni. Erfitt getur reynst að skera úr um staðsetningu örnefna. Oft eru miklir hagsmunir í húfi fyrir deiluaðila og er því talið rétt að þeir leiti til dómstóla þegar svo ber undir.

Virðulegi forseti. Frumvarpið er samið með það að markmiði að nafngiftahefðir séu í heiðri hafðar við myndun nýrra örnefna og að þau séu í samræmi við íslenska málfræði og málvenju. Í frumvarpinu er einnig mælt fyrir um að skýra skuli og samræma stjórnsýslu við skráningu örnefna svo að nafngiftir endurspegli sem best raunveruleikann hverju sinni þannig að endanleg nafngift komist á sem fyrst í ferlinu. Þá er ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti. Þá þarf að gæta samræmis milli laga, svo sem laga um lögheimili, laga um menningarminjar, sveitarstjórnarlaga og fleira.

Að lokum þarf að útskýra á greinargóðan hátt ábyrgð og hlutverk örnefnanefndar varðandi ágreiningsmál um örnefni eins og áður var getið. Nauðsynlegt er að hlutverk örnefnanefndar sé skýrt og verkefni hennar vel skilgreind.

Virðulegi forseti. Meginatriði frumvarpsins eru eftirfarandi:

Lögð er áhersla á örnefni sem huglægar menningarerfðir sem verðugt er að varðveita fyrir komandi kynslóðir.

Mælt er fyrir um markmiðsákvæði.

Lykilhugtök eru skilgreind.

Mælt er fyrir um að samræma skuli opinbera skráningu örnefna og fasteigna í stjórnsýslunni.

Öllum sveitarfélögum er falin ábyrgð á nafngiftum staðfanga.

Í frumvarpinu er hugað beinlínis að öryggissjónarmiðum með því að mæla fyrir um skýrar reglur um skráningarferli og staðarvísun.

Kveðið er á um nýjar almennar málsmeðferðarreglur sem örnefnanefnd er ætlað að starfa eftir.

Ráðgert er að festa í lög málsmeðferð nafngifta nýrra náttúrufyrirbæra. Gert er ráð fyrir að sveitarfélög beri ábyrgð á nafngiftum slíkra fyrirbæra innan sinna marka. Að öðrum kosti liggur frumkvæðið hjá ráðherra, þ.e. ef náttúrufyrirbærið er utan stjórnsýslumarka sveitarfélaga. Drekasvæðið og Surtsey eru dæmi um slík tilvik.

Mælt er fyrir um að skerpt verði á ráðgefandi hlutverki Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðandi söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og nýjar nafngiftir.

Mælt er fyrir um að Landmælingar Íslands haldi örnefnagrunn þar sem hvert örnefni hefur tilvísun til staðsetningar á korti.

Lagt er til að innihald örnefnagrunnsins verði aðgengilegt og endurnot hans án gjaldtöku og í samræmi við 30. og 31. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Virðulegi forseti. Örnefni eru hluti af menningarerfðum íslensku þjóðarinnar og hafa mörg hver varðveist frá fyrstu tíð búsetu í landinu. Í frumvarpinu er kveðið á um breytingar sem miða fyrst og fremst að því að stuðla að verndun þessara minja og að þeim verði skilað óspilltum til komandi kynslóða. Unnið hefur verið markvisst í 100 ár við að safna örnefnum og rannsaka þau hér á landi og hafa örnefni jafn lengi verið talin meðal styrkustu stoða menningararfsins og íslenskrar þjóðarvitundar. Jafnframt er hætta á að alþjóðavæðing og ýmis félagsleg umbrot í nútímanum verði til þess að menningarerfðir glatist. Verði frumvarpið að lögum mun það stuðla að því að hefðbundin örnefni verði varðveitt eftir því sem framast er unnt og að ný örnefni verði ekki innleidd þar sem arfbundin nöfn eru til staðar. Þá er ákvörðunarvaldið flutt nær almenningi með því að færa ábyrgð á nafngiftum og skráningu þeirra til sveitarfélaga í samræmi við nútímalegri stjórnunarhætti eins og fyrr var vikið að.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að málið verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.