144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:46]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga þá kemur það fram í greinargerð um málið að það var haft og því er lýst þar. Það kemur fram að sambandið er sammála þessari breytingu en leggur áherslu á að sveitarstjórnum beri að fá hlutdeild í skráningargjaldi sem Þjóðskrá leggur á allar nýjar fasteignir, það er þeirra hugmynd. Það kemur inn á umræðu um verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkis. Þó má benda á að það er nefnt hér að skráning fasteigna sé að stærstum hluta unnin af starfsmönnum sveitarfélaga og þau eigi því tilkall til að fá þær þjónustutekjur sem innheimtar eru fyrir þá skráningu, það er rétt að halda því til haga.

Hvað varðar að öðru leyti íþyngjandi þætti þá tel ég að það sé ekki svo mjög. Og komi til þess að jafna þurfi á milli mismunandi stórra sveitarfélaga þá er jöfnunarsjóðurinn það tæki sem við höfum. Ég tel að þarna geti menn brugðist við ef mönnum sýnist sem svo að þarna verði einhverjar þungbærar skyldur á minnstu sveitarfélögin, sem ég á kannski ekki beint von á, enda kannski ekki á hverjum degi sem svona mál koma upp. En það er þó alveg sjálfsagt að hafa auga á þessu.

Hvað varðar samskipti og samstarf Stofnunar Árna Magnússonar og Landmælinga þá er um það rætt og um það ákvæði hér í lögunum. Á sama tíma eru líka fulltrúar frá Árnastofnun í stjórninni og mér finnst kannski mestu skipta hérna sú nýjung annars vegar að gagnagrunnar verði algjörlega opnir, sem ég held að sé alveg gríðarlega mikilvægt, og hins vegar, þó ég hafi ekki getið þess í ræðu minni hér áðan, sú nýlunda að búa til gagnagrunn opinn fyrir almenning til að skrásetja örnefni í, sem er þá svona óopinber grunnur en gæti vel haldið (Forseti hringir.) utan um víðtæka þekkingu á örnefnum sem leynist mjög víða í samfélaginu.