144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[13:54]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þingmann á að það var ekki bara í Sovétríkjunum sálugu sem slík kerfi voru uppi. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku gildir sú regla að forsetar sitja ekki lengur en sem nemur tveimur kjörtímabilum, þannig að það er þekkt líka í lýðfrjálsum og opnum ríkjum.

Ég held að það séu í sjálfu sér ágæt rök fyrir því að takmarka það hversu lengi einstakir menn sitja í slíkri nefnd, það sé eðlilegt að hæfileg velta sé í þessu, að áhrif einstakra manna og skoðanir þeirra verði ekki um of yfirgnæfandi. Það er hætta á því, ef menn sitja lengi á slíkum póstum, að skoðanir einstakra manna liti þá um of.

Það þýðir ekki að ekki sé áfram hægt að nýta þekkingu þeirra og kunnáttu. Menn geta sótt í slíka brunna áfram. Án þess að ganga of langt í fullyrðingum þykist ég vita að menn eru ósparir á að veita slíka ráðgjöf og ráð, og jafnvel óumbeðið, þó að menn hafi kannski ekki lengur formlega stöðu í nefnd.