144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

örnefni.

403. mál
[14:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var áhugavert og aðdáunarvert í senn að sjá hæstv. ráðherra koma sögu Sjálfstæðisflokksins að í umræðu um frumvarp um örnefni. (GuðbH: Vildirðu heldur fá þetta undir minjavernd?) Ég ætla [Hlátur í þingsal.] að neita mér um þau augljósu hugrenningatengsl sem andsvar ráðherrans vekur og vísa á frammíkall hv. þm. Guðbjarts Hannessonar.

Það er rétt að það er ekkert langt á milli þeirra sjónarmiða sem hæstv. ráðherra reifar og ég drap á í ræðu minni. Ég held raunar að það sé þannig um okkur flest að þessi sjónarmið eru ekki í fylkingum, þau eru innan í okkur öllum hverju um sig. Sú sem hér stendur verður alla vega að játa á sjálfa sig að vera bæði íhaldssöm og aðhyllast fullkomið stjórnleysi í málfræðiefnum. Einhvern veginn þurfum við að gæta að hvoru tveggja. Við þurfum að skilja mikilvægi þess að íslensk tunga sé vel varðveitt og þá kannski fyrst og fremst samhengi tungunnar, þ.e. hún rofni ekki úr samhengi við það sem var. Samhengið rofnar því aðeins að tungan hætti að vera lifandi. Þess vegna er áskorunin sú að halda málinu öflugu og lifandi í sífelldri þróun og endursköpun. Þar með getum við haldið í ræturnar og söguna, annars náum við ekki því samhengi sem nauðsynlegt er. Þar er mjög stór hluti varðveisla, skráning og utanumhald örnefna.