144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:42]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka sérstaklega fyrir þessa umræðu og einnig orð frummælanda um að taka eigi umræðuna upp úr hinu hefðbundna pólitíska þvargi.

Ég vil meina að þetta Alþingishús sé á jörðinni og að Ísland sé á jörðinni og að Ísland sé hluti af jörðinni allri og það hvernig okkur vegnar hér á þessari eyju sé mjög samhangandi við það hvernig jörðinni allri vegnar og hvernig íbúum annars staðar á jörðinni vegnar. Ég tel hreinlega úr frá sjálfmiðuðum sjónarmiðum sem okkur eru töm hér í þessu húsi að það sé, svo ég sletti, góður „bisness“ að veröldinni og íbúum annarra landa vegni vel.

Það er siðferðileg skylda okkar sem erum eitt af ríkustu svæðum heimsins. Hvað sem okkur kann að finnast og hversu sárt sem okkur er um þá peninga sem við söknum eftir bankahrunið þá erum við samt samkvæmt öllum tölum eitt ríkasta samfélag á jörðinni. Við njótum hnattstöðu okkar og efnahagslífs okkar þrátt fyrir allt í ríkara mæli en flestir aðrir þannig að ég segi að það er siðferðileg skylda okkar að sýna stórhug í þróunarsamvinnu.

Okkur í stjórnmálunum er tamt að líta á núverandi ástand sem endanlegt ástand, að erfitt sé að hnika til varðandi fjármuni, en ef eldfjall gýs á Íslandi og brú rofnar þá finnum við peninga til þess að endurbyggja þá brú. (Forseti hringir.) Ég skil okkur eftir með þá hugsun.