144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:44]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir þakka ég frummælanda fyrir að taka þetta mál upp hér. Á vettvangi utanríkismálanefndar Alþingis höfum við átt nokkrar umræður um þróunarmál þegar á þessu hausti. Við höfum átt fundi með þeim sem að þeim málum starfa, bæði á vegum utanríkisráðuneytis og eins Þróunarsamvinnustofnunar og ég held að fyrir okkur hafi þau fundahöld og upplýsingar sem við höfum fengið í því samhengi orðið til að dýpka umræðuna á vettvangi okkar. Þess vegna er vel til fallið hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur að taka þetta mál upp hér.

Þó verð ég að vekja athygli á því að við munum eiga þess kost síðar í vetur að eiga mun dýpri umræður um þessi efni, bæði í tengslum við fyrirhugað frumvarp utanríkisráðherra um þróunarsamvinnumál og eins varðandi umræður sem boðaðar eru um endurskoðaða þróunarsamvinnuáætlun. Við þau tækifæri eigum við þess kost að fara dýpra í þessa þætti, bæði hvað varðar almenna stefnumörkun í þróunarmálum og hins vegar varðandi skipulag þeirra. Ég ætla að láta nægja að segja á þessu stigi um þetta mál að mér heyrist að það sé allgóður samhljómur um áherslurnar í þróunarsamvinnumálum. Ég held að ekki sé grundvallarágreiningur um það í meginatriðum að við viljum viðhalda fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu og tvíhliða þróunarsamvinnu og ekki er ágreiningur um það, hygg ég, að við viljum standa vel að þessum málum. Það sem greinir á milli held ég fyrst og fremst í augnablikinu er hvort við teljum, eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt upp með, að við verðum að seinka fjárhagslegri styrkingu þessa málaflokks miðað (Forseti hringir.) við fyrri áætlanir eða ekki. Þar liggur grundvallarágreiningurinn og þar kann okkur einfaldlega að greina á og ekki verða samstaða um. En það dregur ekki úr mikilvægi samstöðunnar um þau meginmarkmið sem við vinnum eftir í þessum efnum.