144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:47]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Við erum álitin eitt þróaðasta ríki heims en það samræmist ekki því að við skulum ekki sýna betra fordæmi í þessum málaflokki en raunin er. Ég verð að segja að það vekur mér mikla furðu af því að ég sat í utanríkismálanefnd á síðasta kjörtímabili þegar við samþykktum þessa áætlun og þá var það einróma álit utanríkismálanefndar að við ættum að gefa í. Ég skil ekki af hverju þeir stjórnmálamenn og þeir sem eru í stjórnarmeirihluta núna ætla ekki að halda í heiðri það sem þeir voru sjálfir hlynntir. Hvað hefur gerst í samfélaginu til að réttlæta að við getum ekki haldið okkur við alla vega brotabrot af því sem við vorum svo áköf í að gefa í gagnvart. Mér finnst það skringilegt og mér finnast þetta furðulegar áherslur. Ég er svo hjartanlega sammála hv. þm. Óttari Proppé og því sem fram kom í ræðu hans. Við búum saman á þessari jörðu og við höfum líka fengið, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, að njóta góðs af þeim löndum og þeim halla sem þau lönd hafa í raun gagnvart Vesturveldunum og við njótum enn góðs af. Sum vestræn fyrirtæki stunda miklar fiskveiðar hjá vanþróuðum ríkjum sem ekki fá mikið af arðinum. Ég skora á utanríkisráðherra að breyta um kúrs og standa við það (Forseti hringir.) sem hann boðaði áður þegar hann var óbreyttur þingmaður.