144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni eru framlög Íslands til þróunarsamvinnu lág í samanburði við aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega ef við miðum okkur við aðrar norrænar þjóðir. Í máli hæstv. utanríkisráðherra kom fram að nú ætlum við að fara okkur enn hægar í að uppfylla þau markmið sem við þó höfum sett okkur í þessum málum sem er alls ekki í samræmi við samþykkta þingsályktunartillögu um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016.

Í þessu felast mjög dapurleg pólitísk skilaboð. Það er eitt að ætla að hunsa það sem samþykkt hefur verið á Alþingi, annað er skeytingarleysið við það að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn fátækt og fyrir bættum lífskjörum fólks í fátækustu löndum heims. Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri siðferðileg skylda til að leggja okkar af mörkum í þessum málum og á sama tíma tel ég þetta líka bestu leiðina til þess að tryggja friðvænlegan heim til framtíðar. Það verður nefnilega ekki gert nema með bættum lífskjörum fólks í fátækum löndum og ekki með til dæmis vopnavaldi eða kúgun. Þvert á móti eigum við að leggja okkar af mörkum til að efla innviði, t.d. í menntun og heilbrigðisþjónustu, því að það er þannig sem lítið ríki eins og Ísland getur lagt sitt af mörkum. Þess vegna eigum við auðvitað (Forseti hringir.) að hækka framlög okkar til þróunarsamvinnu.