144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[14:59]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þróunarmál eru málaflokkur sem taka ef til ekki nokkurn enda, a.m.k. eins og ástandið er á sumum stöðum í heiminum. Það eru stór verkefni sem þarf að vinna og þegar aðeins hefur þokast í einu verkefni verður til nýtt, það spretta upp ný heilbrigðisvandamál sem ekki voru séð fyrir þannig að það að þessi 0,22% sem við veitum til þróunarmála kunni að vera meðal þeirra lægstu er náttúrlega ekki nógu gott. Ég held að allir séu sammála um það en hvernig þeirri þróun verður snúið til þeirrar áttar að auka framlagið skal ósagt látið að sinni. Það virðist ekki vera í núverandi fjárlagafrumvarpi eins og það liggur fyrir. Ég held hins vegar að vert sé horfa í að það er hægt að gera ýmislegt með tiltölulega litlum kostnaði í þróunarmálum. Það er það sem hér hefur gerst, hef ég grun um, að þessi þróunaraðstoð Íslendinga hefur verið sæmilega markviss og skilað árangri til þess að hjálpa fólki til sjálfshjálpar, ekki með matvælagjöfum heldur til þess að sumar þessara þjóða hafi komist nær því að verða sjálfbjarga í matvælaframleiðslu. Það eru sömuleiðis verkefni til að setja upp brunna sem er grundvallaratriði í heilbrigðismálum sumra þessara landa. Það skilar mun meiri árangri en matargjafir sem taka enda.

Síðast en ekki síst vildi ég nefna að flest fríverslunarviðskipti í heiminum enda í því að það er ekki samið um fríverslun í viðskiptum með landbúnaðarafurðir en það eru oft og tíðum þær afurðir sem þær þjóðir sem við erum hér að fjalla um framleiða mest. Hugsanlega kæmi sér best að auka fríverslun með vörur þessara þjóða inn á markaði í vestrænum löndum, til hinna tekjuhærri. Það er hægt að gera hluti beinlínis með framlögum, sömuleiðis með óbeinum aðgerðum eins og aukinni fríverslun og frjálslyndi í viðskiptum milli þjóða.

Hvað um það, við getum ekki horft á þróunaraðstoð út frá viðskiptatækifærum, við verðum að horfa á þróunaraðstoð út frá mannúð, að hjálpa þeim þjóðum, því fólki sem er okkar minnstu bræður, hjálpa þeim þjóðum til sjálfshjálpar og sjálfsbjargar.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.