144. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2014.

þróunarsamvinna.

[15:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu en sömuleiðis lýsa yfir vonbrigðum með að hennar sé þörf. Svo vil ég vitna í hv. heimspeking Jesú Jósefsson, kenndan við Krist. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“

Þótt ég sé jafnan ekki mikill Biblíunnar maður þegar ég stíg hérna í pontu, eins og menn vita, hefur mér alltaf þótt vænt um þess speki. Tilfellið er, virðulegi forseti, að við erum rík þjóð, moldrík þjóð við hliðina á ógnarstórum hluta heimsins. Ég tel okkur algjörlega hafa efni á því að standa við okkar skuldbindingar í þessum efnum og ég vek athygli á því að menn ættu að keppast um að vera ofarlega á lista yfir þjóðir sem gefa af allsnægtum sínum þeim sem minna mega sín.

Sérstaklega langar mig að nefna þetta vers sem ég vitnaði í vegna þess að það er einhvern veginn þannig með hjálparstarf, eins og svo margt annað, að menn eru alveg reiðubúnir að hjálpa svo lengi sem þeir finna ekki fyrir því, alveg til í að borga svo lengi sem það kostar ekki neitt, alveg til í framför svo lengi sem hún kostar engar fórnir. Ef við ætlum að fara út í þetta með þeim hugsunarhætti munum við aldrei ná þeim markmiðum sem hér er sagt að við ætlum að reyna að ná.

Þá vil ég nefna að þótt fjárframlögin hafi aldrei verið hærri í krónum talið er bara heldur fátt sem hefur aldrei verið hærra í krónum talið á Íslandi. Neysluverðsvísitalan hefur aldrei verið hærri en hún er núna. Það væri mjög skrýtið ef þetta væru ekki hæstu framlögin. Og þegar við segjum að við sníðum okkur stakk eftir vexti, já, gerum það, (Forseti hringir.) sníðum okkur stakk eftir vexti og stórhækkum þessi framlög. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)