144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

náttúrupassi.

[13:35]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Fréttir hafa borist af því að samþykkt hafi verið í ríkisstjórn tillaga hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um nýjan náttúrupassa. Ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur verið í miklum vandræðum með þetta mál og almennt með hvernig innheimta eigi gjöld af ferðaþjónustunni, byrjaði á að lækka álögur á ferðaþjónustuna en er að hækka þær núna aftur með hækkun á neðra þrepi virðisaukaskatts. Hæstv. ráðherra hefur í 18 mánuði talað fyrir hugmynd sinni um náttúrupassa og sagt að hún væri að fara að bera árangur en hún væri að reyna að vinna að henni í sátt við atvinnugreinina sjálfa.

Nú liggur fyrir algjör andstaða greinarinnar við hugmyndir ráðherrans. Ég vil því spyrja hvers vegna farin sé sú leið að búa til nýtt kerfi ófrelsis og opinbers eftirlits í kringum gjaldtöku af ferðaþjónustu þegar á því er engin þörf. Almannaréttur til frjálsrar umgengni um náttúru Íslands hefur verið við lýði í íslenskum lögum frá því í Grágás, frá því á þjóðveldisöld. Það er stórt skref að afnema þann rétt þegar fyrir liggur eindreginn vilji atvinnugreinarinnar sjálfrar til að þola gjaldtöku og tillaga hennar um gistináttagjald sem bestu leiðina til að koma þessari gjaldtöku fyrir, hvernig í ósköpunum getur þá ráðherrann komist að þeirri niðurstöðu að búa til nýja umgjörð lögregluríkis í kringum íslenskar náttúruperlur með tilheyrandi gaddavír og opinberu eftirliti?

Ég hlýt að spyrja: Í hverju fólust samningsumleitanir hæstv. ráðherra í 18 mánuði? Hvaða samkomulag bauð hæstv. ráðherra upp á? Bauð hæstv. ráðherra bara upp á sína eigin fixídeu um náttúrupassa og ekkert annað?