144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

náttúrupassi.

[13:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég hef eitt og annað við orðalag spurningar hv. þingmanns að athuga, orð eins og „lögregluríki“, „kerfi ófrelsis“ og önnur slík stóryrði. En gott og vel, ég skal svara fyrirspurninni sem til mín var beint.

Það er nú þannig að hugmyndir um náttúrupassa eiga sér ekki uppruna hjá mér. Þetta er ekki hugmynd sem féll af himnum ofan heldur eru þetta hugmyndir sem menn hafa verið að ræða hér um alllangt skeið. Ég get nefnt að fyrirtækið Boston Consulting Group skilaði skýrslu á árinu 2013 þar sem þetta var lagt til. Ferðaþjónustuklasinn Gekon lagði þetta til, samráðsvettvangur um aukna hagsæld, McKinsey-skýrslan svokallaða. Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagði þetta enn fremur til þannig að þessar hugmyndir hafa verið á floti um langt árabil.

Mér var falið af ríkisstjórninni að útfæra þessar tillögur og það hef ég gert. Hv. þingmaður spyr: Af hverju geri ég það í andstöðu við Samtök ferðaþjónustunnar? Ég geri það ekki í andstöðu við Samtök ferðaþjónustunnar. Það var skoðun þeirra, þar til fyrir örfáum mánuðum, að fara þessa leið.

Þær tillögur sem liggja fyrir eru ekki tillögur sem skerða almannarétt, eru ekki tillögur sem setja upp lögregluríki. Þvert á móti er þetta leið sem tryggir trausta fjármögnun til þeirrar uppbyggingar sem okkur er öllum mjög nauðsynleg.

Ég hvet hv. þingmann, í stað þess að koma með sleggjudóma um mál sem hann hefur ekki séð, að hafa örlitla biðlund til viðbótar þar til frumvarpið verður afgreitt úr þingflokki Framsóknarflokksins og við getum rætt tillögurnar eins og þær liggja fyrir en ekki út frá sleggjudómum sem eiga ekki við rök að styðjast.