144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

breyting á lögum um Stjórnarráðið.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Þessi mikilvægu atriði, réttindi starfsmanna til dæmis og æskilegur tímarammi um slíka flutninga, kröfur til þess að flutningarnir fari ekki fram úr kostnaði, að flutningarnir hafi faglegar forsendur — það nægir mér ekki að hæstv. forsætisráðherra segi bara: Já, það er æskilegt að hafa þetta í huga. Það nægir mér ekki.

Mér finnst að ef við ætlum að fara að breyta lögum um þetta — og lögum var breytt 2011, það er rétt, það var tekin út þessi heimild ráðherra til að flytja stofnanir til — ef ráðherra á að fá slíka heimild verði það að vera með einhverri lagaumgjörð. Og sporin hræða í þessu.

Gefin var út munnleg yfirlýsing án fyrirvara, sem kom öllum á óvart, um að flytja ætti Fiskistofu til Akureyrar. Fiskistofa má vera á Akureyri, en það verður að framkvæma yfir miklu lengri tíma og með miklu faglegri hætti. Nú er starfsemi stofnunarinnar í algjöru uppnámi og það á að fara að greiða starfsmönnum fyrir að koma til Akureyrar, (Forseti hringir.) og ef þeir vilja ekki flytja þangað verður litið svo á að þeir hafi sagt upp störfum.

Lítur forsætisráðherra svo á að (Forseti hringir.) áformin um Fiskistofuflutningana séu til eftirbreytni?