144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

breyting á lögum um Stjórnarráðið.

[13:55]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það á við um mjög mörg atriði og raunar flestöll atriði sem við hér á Alþingi fáumst við, eða ráðherrar, að við ákvarðanatöku ber að huga að þáttum eins og hv. þingmaður taldi upp.

Hvað varðar hins vegar þetta sérstaka dæmi sem hv. þingmaður nefndi um Fiskistofu minni ég á að þar er að störfum sérstakur undirbúningshópur sem á að hafa það hlutverk, það verkefni að huga að einmitt þessum atriðum. Það er ekki eins og allir starfsmenn Fiskistofu flytjist á einum og sama deginum norður á Akureyri. Þetta eru allt atriði sem eru til athugunar hjá þessum sérstaka starfshópi sem vonandi mun ná sem bestum árangri þannig að afraksturinn verði öflug Fiskistofa með öflugt og ánægt starfsfólk.