144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

lánsveð.

[14:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það ætla ég að sönnu að gera en ég vil þó áður, vegna orðaskipta hér fyrr á fundinum um svonefndan náttúrupassa, segja það fyrir mitt leyti að fyrr mundi ég sitja af mér sekt í fangelsi en að borga sjálfviljugur fyrir að horfa á til dæmis minn gamla, góða Dettifoss.

Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra og ráðherra húsnæðismála út í málefni hóps sem virðist á góðri leið með að gleymast út úr allri umræðunni um skuldamál heimilanna og það eru þeir sem sitja eftir í bullandi yfirveðsettri stöðu vegna lánsveða. Lánsveðin gera að verkum og gerðu á sínum tíma að þessi hópur fékk ekki sambærilega úrlausn mála í svonefndri 110%-leið þar sem bankar og lífeyrissjóðir neituðu að gefa eftir trygg veð þótt þeir væru á öðrum eignum en hjá viðkomandi lántaka. Ríki og lífeyrissjóðir náðu loksins samkomulagi um að klára málin gagnvart þessum hópi á útmánuðum 2013 þar sem meiningin var að deila kostnaðinum þannig að lífeyrissjóðir tækju á sig 12–15% niðurfærslunnar og ríkið borgaði afganginn gagnvart þeim stóra hluta þessa hóps, og langstærsta hluta, sem voru þeir sem höfðu fengið lánuð veð vegna lántöku hjá lífeyrissjóðum.

Hér var og er mjög oft um að ræða ungt fólk sem keypti á óhagstæðasta tíma á árunum fyrir hrun á uppsprengdu verði á fasteignamarkaði og þurfti einmitt til þess viðbótarveð vegna þess að verðið á fasteignunum var svo hátt. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar kosið að gera ekki neitt í málum þessa hóps. Við hv. þm. Oddný Harðardóttir höfum í tvígang flutt frumvarp um að færa ríkinu heimildir til að efna þetta samkomulag þótt seint væri og klára þetta upp. Ég hef margspurt hæstv. fjármálaráðherra út í þetta og hafa aldrei komið nein svör að gagni.

Skuldamillifærslan núna lagar í einhverjum tilvikum lítillega stöðu þessa hóps en mun ekki breyta því að einhver hundruð ef ekki þúsundir heimila sitja áfram föst í bullandi yfirveðsetningu miðað við verðmæti húsnæðisins sem viðkomandi býr í. Til þrautavara og loksins spyr ég því hæstv. félagsmálaráðherra: Hyggst hún beita sér eitthvað í málum þessa hóps?