144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

lánsveð.

[14:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan líta á þetta sem ákveðna hvatningu frá hv. þingmanni til að ég komi þessum skilaboðum á framfæri við fjármálaráðherra þar sem þetta mál hefur verið á borði hans.

Eins og hv. þingmaður kannast við var ég frekar ósátt við þá niðurstöðu sem sneri að lífeyrissjóðunum á sínum tíma. Ég hef raunar verið mjög ósátt við hve lífeyrissjóðirnir hafa reynst ósveigjanlegir þegar kemur að þátttöku í að taka á skuldavanda heimilanna.

Ég hef talið mjög mikilvægt að sömu leikreglur gildi um þær lánveitingar sem lífeyrissjóðirnir hafa verið með til kaupa á húsnæði og um aðra, að það sé jafnvægi hvað snertir fjármögnun, að það séu ákveðin greiðsluvandaúrræði sem hafa verið til staðar hjá Íbúðalánasjóði og í einhverjum mæli líka hjá fjármálafyrirtækjunum.

Það er eitt af því sem ég hef lagt áherslu á í vinnu sem snýr að framtíðarskipan húsnæðismála, að sömu leikreglur gildi varðandi sjóðfélagalánin og (Forseti hringir.) gilda varðandi önnur húsnæðislán. Það hefur svo sannarlega ekki verið til staðar.