144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvernig getur þingmaðurinn sem hér stendur sætt sig við skattalækkun? Jú, ef þetta er skattalækkun sannanlega og lækkun á verðlagi og bætt kjör heimilanna og neytenda þá getur þingmaðurinn sem hér stendur vart staðið gegn því. Ef maður horfir á hækkun matarskattsins eins og hv. þingmaður kallar það, eina og sér er það náttúrlega óásættanlegt, eitt og sér. Þess vegna er svo mikilvægt, og það er það sem Framsóknarflokkurinn vildi ganga úr skugga um, að mótvægisaðgerðirnar gerðu meira en að vega það upp. Og það er að mínu mati nákvæmlega það sem hér hefur gerst og ég held meira að segja að það hafi verið ásetningurinn með frumvarpinu í upphafi, einmitt að setja fram frumvarp til skattalækkunar og byrja þá vegferð að vinda ofan af því að virðisaukaskattur á Íslandi sé með því hæsta sem þekkist.

Ég á von á því að þegar hv. þingmaður fer að skoða þetta betur komist hann að því, eins og ég, af því að hann er talnaglöggur maður, að ekki er hægt að sjá betur en að hagur heimilanna batni við þessa breytingu. Þess vegna styð ég hana.