144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil spyrja framsögumann meiri hlutans og formann efnahags- og viðskiptanefndar um tvennt. Annars vegar spyr ég um þá lýðheilsustefnu sem birtist okkur í þeim málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar að á sama tíma og hækkun matarskattsins þýðir hækkun á grænmeti, ávöxtum, mjólk, kjöti, fiski, þ.e. ferskum, óunnum vörum, þá þýðir niðurfelling vörugjalda að sykurskattinum meðtöldum að gosdrykkir og sælgæti stórlækka í verði. Líður hv. þm. Frosta Sigurjónssyni vel með þessa lýðheilsustefnu? Og af því að vitnað er í ráðgjöf frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum má ég þá minna á að hún gengur í tvær áttir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir: Takið sykurskattinn til skoðunar og hækkið hann það hressilega að hann virki eða fellið hann niður ella. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur ekki til að sykurskatturinn verði afnuminn, þvert á móti gefur hann þann tón að ef menn hafi efasemdir um að hann virki nógu vel í núverandi mynd eigi að hækka hann. Nei, ríkisstjórnin tekur sig til og fellir hann niður á einu bretti sem leiðir til þess að sykraðir gosdrykkir og sælgæti lækka í verði á meðan grænmetið hækkar. Hvað segir hv. þingmaður um það?

Í öðru lagi vil ég spyrja hann út í þá forsendu allra útreikninga ríkisstjórnarinnar, ráðuneytisins og meiri hlutans að þetta komi jákvætt út fyrir almenning, stærstan hlutann að minnsta kosti. Það hefur gengið illa að sýna fram á að þetta sé beinlínis jákvætt fyrir lágtekjufólk. Eru ekki þeir útreikningar byggðir á þeirri gefnu forsendu að allar lækkanirnar skili sér strax 100%? Hefur það einhvern tímann gerst? Er ekki reynslan sú að allar rannsóknir og niðurstöður og kannanir í gegnum tíðina sýna að hækkanirnar koma strax en lækkanirnar skila sér seint og illa og í sumum tilvikum sannanlega ekki nema í mesta lagi að hálfu (Forseti hringir.) út í verðlag? Er ekki nánast blekkjandi, herra forseti, (Forseti hringir.) að setja hlutina svona fram?