144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Þau eru í sjálfu sér athyglisverð. Ég vildi óska þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson ætti fleiri skoðanabræður innan stjórnarliðsins varðandi þetta með matarskattinn. Það væri vissulega talsverð lausn á þessu máli að setja bara tilteknar valdar vörur á sykurinnihaldi yfir í efra þrepið þó að ég telji reyndar langeinfaldast að hafa áfram beinan sykurskatt.

Ég vek athygli á því að landlæknir og Lýðheilsustöð senda okkur nánast ákall um að gera þetta ekki. Þau biðja Alþingi um að fara nú ekki að standa þannig að málum að hollustuvaran hækki í verði en óhollustan lækki og benda á að þetta sé á góðri leið með að verða alvarlegasta og stærsta lífsstílsvandamál eða lýðheilsuvandamál á Vesturlöndum, það er óhóflegt sykurát og offita.

Varðandi útreikningana er það staðfest að það er hæpið að setja þetta svona fram, um ávinning neytenda af þessu, þegar fyrir liggur að lækkanir af þessu tagi hafa skilað sér mjög seint og illa.

Varðandi það að hafa eftirlit með því (Forseti hringir.) þá er valinn versti tími ársins til þess, að láta þetta (Forseti hringir.) taka gildi um áramót ofan í jólaverslunina og áður en útsölur (Forseti hringir.) koma, sem gerir að verkum (Forseti hringir.) að engin leið (Forseti hringir.) er að fylgja því eftir (Forseti hringir.) að lækkanir skili sér.