144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú hugmynd að setja sykur og sælgæti og gos í efra þrepið gæti verið sú breikkun efra þrepsins sem mundi duga til að lækka efra þrepið um 0,5 prósentustig til viðbótar. Þetta er athyglisverð hugmynd sem við í efnahags- og viðskiptanefnd getum velt fyrir okkur í framtíðinni. Það væri til mikils að vinna að fara úr 24% niður í 23,5% og ná um leið einhverju lýðheilsumarkmiði. Þetta er eitthvað sem er ekki útilokað að velta fyrir sér þó að ekki sé það í þessu skrefi.

Aftur að þessu mikilvæga máli. Ég tek fyllilega undir það með hv. þingmanni að það er alveg gríðarlega mikilvægt að þessar lækkanir skili sér út í verðlagið, ekki bara vegna þess að það gefur okkur á þinginu skilaboð um að þegar við lækkun skatta, þó að við þurfum að gera það í litlum skrefum, sé það til einhvers og verði ekki bara eftir einhvers staðar í álagningunni úti í bæ. Þá er til lítils að vera að lækka skattana.

Ég skora á kaupmenn og ég held að þeir eigi þann hag sameiginlegan með öllum í landinu að hérna verði fleiri slík skref stigin.