144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:37]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hækkun matarskattsins í 11% lýsir skilningsleysi ríkisstjórnarinnar á stöðu heimilanna í landinu, einkum verst stöddu heimilanna. Uppgjöf Framsóknarflokksins er algjör í málinu. Eftir digurbarkalegar yfirlýsingar um að ætla að standa í vegi fyrir hækkun á skattinum hafa þeir nú lagst flatir og láta þetta yfir sig ganga. Þó er það þannig að hér stígur formaður nefndarinnar, Frosti Sigurjónsson, einn þessara framsóknarmanna, aftur og aftur í ræðustólinn og segir okkur sem við öll vissum og kom margoft fram fyrir nefndinni að hækkanirnar munu skila sér, en lækkanirnar munu skila sér seint og illa. Það er ekki ég sem segi þetta, það er nefndarformaðurinn sjálfur. (Gripið fram í: Ég sagði það ekki.) Samt kemur hann hér upp og leggur til hækkanirnar og reiknar áhrifin á heimilin eins og lækkanirnar munu skila sér að fullu og strax.

Virðulegur forseti. Hvers konar endileysa er þetta í málflutningi hjá hv. nefndarformanni? (Gripið fram í.) Ég hlýt að spyrja hv. nefndarformann, þegar allar rannsóknir sýna að hækkanir skila sér á fullum þunga á lífsnauðsynjar venjulegra heimila, en lækkanir skila sér bæði seint og illa: Hvers vegna leggur hann til hækkun á nauðsynjar en lækkun á ýmsar vörur sem skila sér seint og illa? Hvaða hundalógík er þetta eiginlega?

Virðulegur forseti. Ég verð að spyrja hv. þingmann. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins var talað um hækkun í 11% þannig að það var greinilega alltaf ætlun fjármálaráðherra að fara í 11%. En þar stóð líka að hann ætlaði að hækka í 14% á árinu þar á eftir. Ég hlýt að spyrja Framsóknarflokkinn: Heldur hann því enn opnu að hækka matarskattinn aftur á næsta ári og þá í 14%, eða ætlar hann líka að segja þvert nei við seinni hækkuninni eins og hann gerði við hinni fyrri með engum árangri?