144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf að leiðrétta hv. þingmann sem beindi til mín spurningu. Ég sagði ekki að ég tryði því að lækkanir mundu ekki skila sér út í verðlagið, ég sagði það ekki. Ég var að vitna í orð manna sem komu fyrir nefndina, að þeir hefðu haft efasemdir um það. Það er alveg þess virði að hafa áhyggjur af því, en ég sagði ekki að þær mundu ekki skila sér. Ég sagði að það yrði hlutverk okkar neytenda … (Gripið fram í: Þar er efinn.) Þar er efinn. Þetta er nokkuð sem við getum gert eitthvað í og það eiga að vera sameiginlegir hagsmunir allra, bæði neytenda, allra samtaka og verslunarinnar að leyfa lækkunum að skila sér út í verðlagið, sjá til þess að þær geri það því að annars verða ekki frekari skattalækkanir, það er augljóst. Ég held að það sé hagur íslenskra kaupmanna að hér séu lægri skattar svo að verslunin verði hér á Íslandi en ekki einhvers staðar í útlöndum. Þetta er allt liður í því að bæta stöðu allra Íslendinga.

Varðandi 14% sem hv. þingmaður velti fyrir sér, hvort hér væru menn að leggja blessun sína yfir frekari hækkanir á lægra þrepinu með þessari breytingu, þá held ég ekki að svo sé. Hér var verið að hækka úr 7% í 11%, að gefnu því að mótvægisaðgerðir skiluðu sér þannig að þetta kæmi betur út fyrir alla, öll heimili, alla neytendur. Ég sé ekki fyrir mér neina aðra hækkun á neðra þrepinu án þess að sambærilegar fyrirvarar yrðu settir.