144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í byrjun hélt ég að hann ætlaði að fara að vera jákvæður og málefnalegur öndvert við það sem umræðan hefur því miður verið um þetta frumvarp, um þetta mál, bæði hér á þingi og í fjölmiðlum. Þetta er nefnilega skattalækkun í heild sinni. Yfir því hélt ég að flestir mundu gleðjast. Nei, hv. þingmaður sagði: Þetta er merkilegur áfangi. Þá hélt ég að hann væri að gleðjast yfir því að vörugjöldin yrðu lögð niður. Nei, hann var að setja út á það að Framsókn styddi hækkun á matarskatti.

Hann talaði heilmikið um hækkun á matarskattinum eins og það væri eina innihald þessa frumvarps. Í lokin kom hann reyndar örlítið inn á vörugjöldin og mundi eftir því að hann hefur ekki frekar en ég komið inn á heimili þar sem ekki er klósett, vaskur, ísskápur, þvottavél, eldavél o.s.frv. en það virðist vera í málflutningi hv. þingmanns og annarra stjórnarandstæðinga að enginn kaupi þetta og enginn borgi þetta. Það er dálítið merkilegt.

Varðandi sykurinn, sem hv. þingmaður talaði um að væri hættulegur, ég er honum á vissan hátt sammála. Það er náttúrlega spurningin um hvort við á hinu háa Alþingi eigum að hafa vit fyrir fólki, jafnvel fólki sem er eldra en hv. þingmaður. Þú átt ekki að borða sykur, segir hv. þingmaður við sjötugan mann, þ.e. jafnaldra minn, í stað þess að upplýsa menn um að sykur sé hættulegur, sem er orðin ansi víðtæk þekking, og hvetja menn til að hætta þessari neyslu. Það finnst mér miklu skynsamlegra og hefur reynst mér miklu betur en að reyna að hvetja menn eða neyða þá til með hækkunum enda þyrfti hækkunin að vera svo ofboðsleg til að það virkaði.