144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Með sömu rökum er hægt að leggja af allar álögur á áfengi og tóbak samkvæmt hugmyndum hv. þingmanns. Ég vil ekki banna fólki að neyta sykurs en það er ekkert sem bendir til þess að það sé eðlilegt að lækka verð á sykruðum matvörum. Það er þvert á móti þannig að allir alþjóðlegir sérfræðingar telja að sykur sé á pari við áfengi og tóbak hvað hættueiginleika varðar. Þar af leiðandi eru nákvæmlega sömu efnisrök fyrir háum álögum á þá vörutegund eins og áfengi og tóbak.

Hv. þingmaður lýsti hér hins vegar alveg fyrir okkur áðan hugmyndinni á bak við þetta mál. Þetta er skattalækkun þegar á heildina er litið. Það er markmið þessarar ríkisstjórnar í þessu máli eins og öllum öðrum. Er hægt að segja á heildina litið að þetta sé skattalækkun? Engu máli skiptir þó að sumir fari verr út úr því ef þetta er skattalækkun á heildina litið. Þarna sjáum við veikleika þessarar ríkisstjórnar, hún hefur verið að flytja skattbyrði með skipulegum hætti yfir á venjulegt fólk af þeim sem best hafa það.

Samkvæmt þessari röksemdafærslu hv. þingmanns er það sem sagt bara skattalækkun ef við lækkum skatta niður í ekki neitt á þá ríkustu en hækkum á móti skatta á venjulegt fólk þannig að í heildina tekið tapi ríkið milljarði í skatttekjur. Ég kalla það ekki skattalækkun að skattleggja venjulegt fólk meir til þess að einhverjir allra best settu sleppi við skatta. Þetta er hugmyndafræðileg veila hjá hv. þingmanni sem ríkisstjórnarflokkarnir eru því miður illa haldnir af.

Það er vandinn í þessu máli, það er verið að leggja skatta á nauðsynjar en létta álögur á því sem ekki eru nauðsynjar.