144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur datt hv. þingmaður niður í ómálefnalegar hártoganir. Ég sagði „á heildina litið, fyrir öll heimilin í landinu“. Ég sagði ekki að þeir sem eru tekjuhæstir ættu að borga minna.

Ég hygg varðandi vörugjöldin að það séu hlutfallslega fleiri ísskápar hjá lágtekjufólki en hjá hátekjufólki af því menn eru yfirleitt ekki með marga ísskápa. Lágtekjufólk verður að kaupa einn ísskáp, hátekjufólk sömuleiðis og eyðir þar af leiðandi miklu minni hluta af sínum tekjum en lágtekjufólkið í ísskápa. Þeir lækka um 20% og hafa þegar lækkað. Þegar menn tala um að lækkanirnar komi hægt fram þá gengur þetta nú svo hratt að það er ekki einu sinni búið að samþykkja frumvarpið þegar búið er að lækka verð á ísskápum, vöskum, klósettum o.s.frv. í mörgum verslunum, sérstaklega rafmagnstækjum sem allir þurfa og eiga.

Ég tel mig því ekki vera (Forseti hringir.) að hækka skatta á lágtekjufólk og lækka þá á hátekjufólk.