144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:21]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ýmislegt til í þeim athugasemdum sem hv. þingmaður rekur frá alþjóðlegum stofnunum um að virðisaukaskattskerfi henti ekki endilega vel til að ná félagslegum markmiðum. Það eru takmörk fyrir því.

Á hitt skal þó líta að það er bara eitt land í Evrópu sem hefur kosið að hafa eitt þrep í virðisaukaskatti, Danmörk. Öll hin hafa fleiri en eitt þrep og setja nauðsynjar í neðra þrep. Það er líka þannig að ekki er sama með hvaða hætti menn hækka vörur í neðra þrepi. Ég nefni sem dæmi að af hálfu verkalýðshreyfingarinnar var kastað upp þeim bolta, sem er ein af þeim hugmyndum sem þessi ríkisstjórn kaus að taka ekki á lofti, að verkalýðshreyfingin væri til viðræðu um útfærslur á hækkun á neðra þrepi svo fremi að mótvægisaðgerðirnar væru raunverulegar. Það var sérstaklega rakið að auka þyrfti framlög til stofnkostnaðar í félagslegu húsnæði, auka myndarlega húsaleigubætur og koma af alvöru inn í önnur kaup á nauðsynjum.

Það er mjög athyglisvert að ríkisstjórnin skuli koma fram með svona hugmynd sem er bara kokkuð af litlum hópi í fjármálaráðuneytinu. Hún er greinilega ekki hrædd við aðila vinnumarkaðarins. Samtök atvinnulífsins koma með allt aðra útfærslu, það er ekki hlustað á þau. Alþýðusambandið býður upp á viðræður og samtöl, það er ekki hlustað á það.

Það er ákveðið afrek ríkisstjórnar með svona mikinn meiri hluta að ráða ekki einu sinni við að mynda samstöðu um mál af þessu tagi þegar bæði Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambandið lýsa sig viljug til samráðs um útfærslur. Nei, nei, þá er valin einhver kokkuð útfærsla af litlum hópi í fjármálaráðuneytinu og hún felur í sér mjög ósanngjarna dreifingu byrða og um það eru einfaldlega allir greiningaraðilar sammála.