144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg tilraunarinnar virði og ósköp skynsamlegt að leita leiða til að lækka efra þrepið enda er það allt of hátt. Það var markmið okkar í síðustu ríkisstjórn að draga úr skattlagningu í efra þrepi og færa bilið því að hún var talin of há og undanskotsfreistingin allt of há í svona hárri prósentu.

Það sem ég sagði áðan var ósköp skýrt. Það eru efnisrök fyrir því að hafa nauðsynjar í neðra þrepi. Ef menn ætla að breyta þeirri skipan verða þeir að koma með fullnægjandi mótvægisaðgerðir. Þessar aðgerðir núna eru það ekki gagnvart lágtekjufólki. Ég bara vísa til þess sem Alþýðusambandið hefur sagt, BSRB hefur sagt og ég vísa líka til gagnrýni Samtaka atvinnulífsins og hugmynda þeirra um að flytja fatnað og skó í neðra þrep til þess að bæta við mótvægisaðgerðir.

Ég segi enn og aftur: Ríkisstjórn sem ræður ekki við að skapa víðtæka samstöðu um breytingu eins og þessa ræður (Forseti hringir.) ekki við neina pólitíska samstöðu.