144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans og yfirferð á nefndaráliti minni hluta. Ég vil byrja á að árétta að ríkisstjórnin lagði jú upp með að lækka hér skatta og álögur á atvinnulíf og heimili. Í því frumvarpi sem við ræðum hér og breytingum til 2. umr. er um að ræða skattalækkun og auknar ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa. Ég vil líka árétta það að fyrirvari framsóknarmanna sem hv. þingmaður kom inn á laut að því að gefa sér tíma í að gaumgæfa það að ráðstöfunartekjur allra tekjuhópa, tekjutíunda, mundu skila sér. Það má vel vera að hv. þingmaður horfi á tímann á milli umræðnanna sem sleifarlag. Ég horfi þvert á móti á það sem vönduð vinnubrögð að gefa sér tíma í að fara yfir allar umsagnirnar sem voru mjög fínar. Ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um nauðsyn þess að gefa sér tíma og ganga úr skugga um að það skili sér.

Það kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að 6,2 milljarðar verði skildir eftir í hagkerfinu. Það gerist ekki nema við horfum á samspil allra aðgerða. Þess vegna er spurningin í sjálfu sér einföld af því að hv. þingmaður kom inn á það að virðisaukaskattskerfið væri ekki, og við erum sammála um það, æskilegt kerfi til þess að ná félagslegum markmiðum: Er hv. þingmanni gersamlega fyrirmunað að horfa á heildaráhrif breytinganna?