144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og yfirferð yfir þetta mál. Mér fannst hún á margan hátt fróðleg og gagnleg.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hann væri þeirrar skoðunar að virðisaukaskattur sé skilvirk aðferð til þess að koma tekjujöfnun eða lífskjarajöfnun til skila til þeirra sem minna mega sín eða til fátækari heimila, hvort lægra þrep á nauðsynjum sé skilvirk leið til þess að jafna aðstöðu fólks eða hvort hann telji að til séu skilvirkari leiðir. Það er fyrsta spurningin.

Svo vildi ég ræða við hv. þingmann hvort hann teldi að hækkunin úr 7% í 11% varðandi rithöfunda, bókaútgefendur og það allt ráði úrslitum. Það eru miklir erfiðleikar í þessari grein, eins og ég held að hv. þingmaður hafi komið að í ræðu sinni. Það er margvíslegur vandi sem steðjar að. Það er ný tækni, það er niðurhal á bókum og kvikmyndum og tónlist frá þeim stað þar sem hún er ódýrust og minnstur virðisaukaskattur á henni. Er það hugsanlega framtíðin að við þurfum að fara með þetta allt saman sömu leið og með fjármagnsþjónustu eða í 0% virðisaukaskatt? Er það eitthvað sem við þurfum að skoða í framtíðinni með opnum huga til þess að Ísland geti verið samkeppnishæfur staður fyrir þau fyrirtæki sem framleiða tónlist, kvikmyndir, bækur og sögur? Er það leið sem hugnast honum? Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns í þessu.