144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvort það sé skilvirk aðgerð eða ekki að styðja við tiltekna hópa í samfélaginu eða tiltekna geira eins og menninguna með lágu virðisaukaskattsþrepi eða að aðrar leiðir séu betri þá er erfitt að gefa einhlítt og einangrað svar við þeirri spurningu að mínu mati. Það skiptir miklu í hvers konar skattumhverfi þú ert að öðru leyti. Í hinum besta heimi allra heima gætum við auðvitað sagt að með því að vera með vel prógressífan tekjuskatt, öflugt millifærslukerfi til að styðja við barnafólk og eftir atvikum aðra hópa, þá þyrfti ekkert að vera að horfa sérstaklega til þess að virðisaukaskattsfyrirkomulagið hefði eitthvert tekjujöfnunargildi í sjálfu sér, það væri þá vel fyrir því séð í gegnum prógressíft skattkerfi að öðru leyti. Nú er það ekki endilega svo, þótt vissulega hafi það stórlagast með breytingunum á síðasta kjörtímabili.

Ég ætla þá líka að vona að þessi ríkisstjórn ætli ekki að gera hvort tveggja, að draga þó úr þeim stuðningi sem lágt virðisaukaskattsþrep sannanlega er, hefur verið við tekjulág heimili, við getum deilt um hve mikið, við menninguna og fletja svo tekjuskattinn út í framhaldinu. Ég hef heyrt glitta í þau sjónarmið hjá hæstv. fjármálaráðherra. Þá bíð ég ekki í það vegna þess að þrátt fyrir allt er þetta skilvirkt og í raun og veru er það þannig að ef við höfum ráð á því að hafa lægra þrepið mjög lágt er það beitt aðgerð til að ná þessum markmiðum. Þá kemur hins vegar hinn gallinn að það er ekki æskilegt að bilið sé óendanlega mikið á milli þrepanna. Það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið.

Lágt þrep virðisaukaskatts á vöru eins og matvæli er í reynd mjög hagstætt skattafyrirkomulag fyrir þann geira vegna þess að menn fá allan innskatt af aðföngum dreginn frá en borga lítinn útskatt og geta jafnvel sloppið á núlli. Ferðaþjónustan, það er alveg vitað að á köflum hefur hún verið að fá endurgreitt út úr virðisaukaskattskerfinu meðan gistingin var bara í 7%. (Forseti hringir.) Ef hún er í einhverjum fjárfestingum eða einhverri uppbyggingu er innskatturinn það mikill að hún fær beinlínis endurgreitt. Það er mjög virkt (Forseti hringir.) stuðningskerfi, en ferðaþjónustan þarf ekki á því að halda.