144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég var nokkuð spenntur fyrir því að sjá þetta frumvarp og að taka þátt í umræðu um virðisaukaskattskerfið og er það enn, mér finnst það mjög mikilvægt. Ég deili áhuga mjög margra og ég held fulltrúa flestra flokka á þingi á því að einfalda virðisaukaskattskerfið, gera það skilvirkara, réttlátt og gagnsætt. Ég er að mörgu leyti hrifinn af skipulagi eins og er í Danmörku þar sem er bara eitt þrep á virðisaukaskatti, en mér finnst líka mikilvægt að átta sig á því á hvaða hátt við erum alveg ótrúlega langt frá Danmörku þegar kemur að því að taka upp eitt virðisaukaskattsþrep á Íslandi.

Mér finnst sumir vera með svolítið valkvæða heyrn þegar kemur að ráðleggingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þessum efnum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir vissulega að skynsamlegt væri að hafa eitt þrep á virðisaukaskatti og allir borguðu bara það sama, en við þurfum líka að hlusta á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar hann segir: Þá verður að jafna tekjur og afkomu fólks með einhverjum öðrum hætti. Þar er himinn og haf á milli Íslands og Danmörku. Danir borga háan tekjuskatt og þeir eru sáttir við að sá skattur fari í bótakerfið og til þess að jafna lífskjör. Hér hefur sú samræða ekki verið tekin þannig að við höfum komist að samkomulagi um það. Ég er ekki viss að menn mundu vilja láta það fylgja með einföldu virðisaukaskattskerfi að fara í hækkun tekjuskattsmegin. Það er einfaldlega óútkljáð.

Tökum bækur, það er vissulega hátt virðisaukaskattshlutfall á bókum í Danmörku vegna þess að þrepið er bara eitt, en það er himinn og haf á milli rithöfunda í Danmörku og aðbúnaðs þeirra og rithöfunda hér. Í Danmörku er þó bókasafnssjóður rithöfunda sem virkar þannig að þeir fá eitthvað fyrir sinn hlut. Hér fá þeir ekkert sem hægt er að tala um, hlægilegar upphæðir. Ekkert er gefið í í þeim efnum í frumvarpinu, það á ekki að setja meiri pening í Bókasafnssjóð höfunda svo að þeir uppskeri eitthvað heldur er bara verið að hækka. Það gengur því ekki að hlusta svona á ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það verður allt að fylgja með.

Það er samt margt gott í frumvarpinu. Við í Bjartri framtíð fögnum því að verið er að afnema vörugjöldin. Það er þó einföldun og skilar sér vonandi, kannski ekki alveg allt, í lækkun á ýmsum vörum sem fólk þarf að kaupa, byggingarvöru, heimilistækjum, hinu og þessu. Það er gott að hærra þrep á virðisaukaskatti er lækkað. Það þurfti að hækka það upp í mjög háa prósentu, eina þá hæstu í Evrópu, í kjölfar efnahagshrunsins — alltaf þarft að minna aðeins á að það henti sem sagt á Íslandi fyrir nokkrum árum. Það þurfti að afla tekna með þeim hætti og ég held að skynsamlegt sé að lækka þrepið aftur. Gott.

Stóri gallinn á frumvarpinu er hins vegar, og það verður ekkert fram hjá því horft, að verið er að hækka matarverð og hækka verð á bókum, útgefinni tónlist og menningu. Um þetta er ekki hægt að deila. Það er einfaldlega verið að hækka það. Ég held að við þurfum ekki að deila mikið um það að matur er einstök vara. Ísskápur kemur ekkert í staðinn fyrir mat. Þótt matur sé oft geymdur í ísskáp kaupa menn yfirleitt ekki ísskáp jafn oft og þeir kaupa mat. Þeir kaupa ekki ísskáp með hverri matarkörfu svo dæmi sé tekið. Þetta eru ekki sambærilegar vörur. Hér er ákveðinn vilji til að líta á þessar breytingar allar í heild sinni. Mér er efst í huga að lækkun á vörugjöldum og lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts á að mestu leyti að fjármagna með hækkun á matarverði í þjóðfélagi þar sem matarverð hefur þegar mjög sterka tilhneigingu til að vera hátt. Við búum við mikla fjarlægð frá mörkuðum þannig að innflutningur er dýr. Við búum við háa tolla á ýmsa matvöru, verndartolla, við búum við vel þekkt samkeppnisleysi í smásölu og óhagræði í smásölu. Það er ekkert tekið á þeim þáttum. Það er bara verið að hækka verð á mat.

Stjórnarmeirihlutinn segir að þetta sé samt sem áður skattalækkun ef maður líti á allt í heild sinni. En ég vona að stjórnarmeirihlutinn skilji líka að það er mjög einkennilegt fyrir marga og þar á meðal mig að horfa upp á það að hækkun á skatti á mat sé eitthvað eðlilegt á sama tíma og verið er að lækka álögur á útgerðina í landinu, veiðigjöld minnka ár frá ári. Það er þetta sem fólk sér. Óhollusta verður ódýrari, það fylgir einfaldlega frumvarpinu. Leggja á auðlegðarskatt algjörlega af og þó að hann sé umdeildur eru kannski margir sem spyrja sig: Af hverju þarf ekki að fjármagna það líka? Þar fara 10 milljarðar úr ríkissjóði. Af hverju þarf allt í einu núna, þegar ríkisstjórnin er búin að lækka ýmis gjöld og á mjög umdeildan hátt, þegar það á að afnema vörugjöld og lækka efra þrep virðisaukaskatts, sem er gott, af hverju þarf einmitt þá að hækka matarverð? Ég held að margir spyrji sig að þessu. Þetta er að mínu viti óþarfi.

Eitt sem mér finnst mjög slæmt í þessu er að það hefur verið hringlandaháttur með virðisaukaskattskerfið á undanförnum árum, ef við lítum yfir undanfarin missiri. Tökum dæmi af virðisaukaskatti á gistiþjónustu. Hann var færður niður í 7% árið 2007 og svo átti hann að fara upp í 25%, en það var bakkað með það með mjög góðum rökum niður í 14%. Svo var ákveðið að gistiþjónustan mundi ekki borga 14% og þá var skatturinn kominn aftur niður í 7%. Núna átti að fara með hann upp í 12% en ákveðið að fara með hann í 11. Ég held að ég sé bara að tala um tveggja ára tímabil þar sem aðilar í þessum rekstri hafa þurft að fara í þennan rússíbana.

Í mínum huga sýnir þetta að spursmálið um það hvernig við viljum hafa virðisaukaskattskerfið á Íslandi er óútkljáð. Það er mjög athyglisvert að lesa í athugasemdum með frumvarpinu að vissulega er hafin vinna sem á að vera þverpólitísk og í samráði við hagsmunaaðila um það hvernig virðisaukaskattskerfið eigi að vera, en hún er bara hafin, hún er rétt svo hafin. Ég held að miklu skynsamlegra væri að afnema vörugjöldin, lækka efra þrepið en halda sig við þriggja þrepa kerfið sem við búum við núna, halda sig við það í bili þannig að ferðaþjónustan sé í 14% og skili þar inn peningum, og lækka ekki skatt á sykur. Þiggjum þær tekjur að sinni og gefum helst í hvað varðar forvarnir í sykurneyslu, t.d. með betri merkingum og fræðslu og öðru slíku. Efnum svo til samráðs og klárum það, sjáum hvernig við getum einfaldað kerfið, það vilja það allir. Sjáum hvernig raunhæfar mótvægisaðgerðir gagnvart lágtekjufólki og menningu líta út, búum þær til. Það er mikið verkefni en til mikils að vinna vegna þess að við getum ekki með hverri ríkisstjórn byrjað alltaf að breyta þessu kerfi til og frá. Mér finnst þetta óljóst núna.

Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra þegar hann lagði frumvarpið fram hvað stæði til. Er stefnt að einu þrepi með tilheyrandi breytingum í skattkerfinu í heild sinni og í bótakerfinu? Hann sagði nei. En í erindisbréfi einhvers starfshóps innan ráðuneytisins sem hefur fundað um þetta mál segir, skilst mér, að stefnt sé að einu þrepi. Mér finnst þetta mjög óljóst. Í upphaflega frumvarpinu sem var sagt vera til einföldunar á virðisaukaskattskerfinu var ein undanþága frá virðisaukaskatti afnumin, ein. Hún var um fólksflutninga í afþreyingarskyni. Ég spurði hæstv. ráðherra hvort til stæði í þágu einföldunar að afnema fleiri undanþágur og svarið var nei. Svo sáum við í meðferð nefndarinnar, maður sá það náttúrlega strax, að í sjálfu sér var fátt til einföldunar innan virðisaukaskattskerfisins. Þó að afnám vörugjalda sé til einföldunar er fátt til einföldunar innan virðisaukaskattskerfisins í frumvarpinu enda kom fljótt í ljós við umfjöllun nefndarinnar að munurinn á fólksflutningum í afþreyingarskyni og fólksflutningum í einhverju öðru skyni er huglægur og skapar alls konar flækjur hjá ótal rekstraraðilum. Mér finnst svolítið merkilegt að sjá að í meðförum nefndarinnar hefur flækjustigið jafnvel heldur aukist. Ég veit ekkert af hverju það er, ég held að það sé vilji allra nefndarmanna að reyna að minnka flækjustigið en það hefur tilhneigingu til að myndast. Núna eftir breytingartillögu nefndarinnar er allt í einu kominn inn í virðisaukaskattskerfið mikilvægur greinarmunur á sundlaugum og baðstöðum. Sumir staðir sem eru í þeim rekstri eru skilgreindir þannig að þeir séu með bað, sem sagt einhvers konar náttúrulegt bað, og líka sundlaug. Og þeir klóra sér núna í höfðinu og vita ekki í hvaða virðisaukaskattsþrepi þeir eru. Sumir aðilar í fólksflutningum sinna í raun og veru bæði almenningssamgöngum og öðrum fólksflutningum og eiga erfitt með að greina þar á milli. Svona er þetta.

Þetta flækjustig viljum við vonandi uppræta og það er orðið sérstaklega aðkallandi í ferðaþjónustunni, þetta hentar rekstraraðilum illa og er dragbítur á atvinnulífið. Mér finnst slæmt og ég held að mörgum í efnahags- og viðskiptanefnd finnist það líka að við höfum ekki haft ráðrúm til að bregðast við mjög góðum tillögum t.d. frá Samtökum atvinnulífsins í þessari umræðu. Þau lögðu til mun meiri einföldun á virðisaukaskattskerfinu en lagt er upp með í þessu frumvarpi og breytingartillögu, til dæmis að allar samgöngur færu í neðra þrep virðisaukaskatts. SA og fleiri komu líka með tillögu sem mundi í mínum huga gera þó eitthvað til að mæta hækkun á mat, sem er að lækka virðisaukaskattsprósentu á föt, sem kemst kannski næst því að vera sambærileg nauðsynjavara. Hvað fatnað varðar þá búum við við það að núna fer mjög stórt prósentuhlutfall verslunarinnar, allt að 40% var áætlað, fram erlendis. Íslendingar kaupa að mjög stórum hluta föt sín erlendis. Það væri því mögulega hægt að breikka skattstofninn með því að færa föt niður í neðra þrepið og hvetja þannig til meiri innlendrar verslunar.

Á þetta var hlustað en ekki brugðist við. Mér finnst það lýsandi fyrir það hversu skammt á veg vinnan með virðisaukaskattskerfið og skattkerfið í heild sinni er komin. Það er mér efst í huga á þessum tímapunkti hversu nauðsynlegt er að efna til miklu betra samráðs um þessa hluti. Og mér finnst að meðan samráðið á sér stað eigum við ekki að hækka verð á mat og hækka verð á menningu, bókum og tónlist. Við eigum einfaldlega að bíða með það. Bara með því að láta hjá líða að lækka álögur á óhollustu, að lækka álögur á einhverja mestu heilsufarsvá sem um getur í samtímanum, sem er sykur, væri líklega hægt að fjármagna það að matarskatturinn mundi hækka þó upp í 9%, samkvæmt mínum kokkabókum. Bara með því, ef menn mundu slaka á með lækkun á óhollustu, væri hægt að dempa hækkun á mat og menningu. Mér finnst það ótrúlegt stílbrot og stefnuleysi þegar kemur að lýðheilsumálum og líka annað dæmi um valkvæða heyrn á ráðleggingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar menn ákveða í frumvarpinu að lækka eða afnema sykurskattinn. Það getur vel verið að skatturinn hafi ekki skilað tilætluðum lýðheilsumarkmiðum og það er í rauninni það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir, en sjóðurinn segir í raun og veru í framhaldi af því að þá væri skynsamlegt, eða a.m.k. er það ein af ráðleggingum hans, að gefa frekar í hvað þetta varðar þannig að skatturinn nái lýðheilsumarkmiðum. Mér finnst það alla vega ekkert æðislegt markmið í ríkisfjármálum að gos sé mjög ódýrt eða að sælgæti sé mjög ódýrt. Ég held að það væri vel hægt að halda þeim tekjum inni.

Það er svolítið rætt um heildaráhrifin á skattkerfið og ríkur þáttur í málflutningi stjórnarmeirihlutans er að hér sé í heild sinni um skattalækkun að ræða. Ég geld varhuga við þeim málflutningi. Ef við horfum bara á virðisaukaskattskerfið þá reiknast mér svo til að um skattahækkun sé að ræða, vegna þess að áhrif hækkunar á mat eru einfaldlega það mikil. Ef við tökum afnám vörugjalda með má vissulega segja að í þessu tvennu, virðisaukaskatti og vörugjöldum, séu áhrif breytinganna jákvæð fyrir almenning ef lækkanirnar skila sér að fullu út í verðlagið, a.m.k. að verulegum hluta. Og það er sýnd veiði en ekki gefin. En ef við tökum síðan inn 3. mál, sem fjallar líka um skatta og gjöld, tekur ríkissjóður þar til sín 2 milljarða í gegnum sjúklinga, í gegnum atvinnuleysisbætur, í gegnum jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóðanna og hitt og þetta. Í mínum huga er ríkissjóður í raun og veru að taka í gegnum tryggingagjaldið á hverju ári um það bil 20 milljarða aukalega með því að láta það ekki lækka í samræmi við minna atvinnuleysi. Tryggingagjaldið var hækkað út af mjög miklu atvinnuleysi í eftirleik hrunsins, en hefur ekki lækkað til samræmis síðan. Og með því gjaldi koma um það bil 20 milljarðar inn í ríkissjóð sem áður voru notaðir til þess að fjármagna atvinnuleysisbætur. Þetta er gjald sem bitnar á launafólki, bitnar á nýsköpunarfyrirtækjum sem skila ekki tekjum en þurfa að borga þennan skatt, bitnar á litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Hver eru þá heildaráhrifin? Ég veit það ekki. Ef ég tek 20 milljarða af tryggingagjaldinu með, sem mér finnst ríkið vera að innheimta einhvern veginn bakdyramegin í skattkerfinu, fæ ég mjög stóra neikvæða tölu af þessu öllu saman. Mér finnst þetta því vera svolítil deila um keisarans skegg, hártoganir. Þetta er allt spurning um hvernig litið er á þetta. Í öllu falli finnst mér að ríkisstjórnarflokkarnir eigi ekki að komast upp með að skoða að minnsta kosti ekki saman 2. mál og 3. mál, sem bæði fjalla um skatta og gjöld.

Ég mundi segja að allt þetta mál sýni að mjög nauðsynlegt sé að fara í heildarendurskoðun á skattkerfinu. Það er mikill samhljómur um það, flestir ef ekki allir vilja einfalda virðisaukaskattskerfið, en það þýðir hins vegar að það verður líka að horfa á breytingar sem nema miklu meira en bara milljarði eða svo í barnabætur. Það þarf að horfa á breytingar í bótakerfinu og í tekjuskattskerfinu, í tryggingagjaldinu, öllu heildarsamhenginu. Mér finnst þetta allt sýna að fara þarf fram mjög róttækt, þverpólitískt samráð um skattamál á Íslandi og þetta frumvarp er því að mínu viti að stórum hluta ótímabært.