144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:31]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir hans ræðu. Mér fannst hv. þingmaður koma mjög vel inn á það sem skiptir máli og á í raun að vera keppikefli okkar hér, þ.e. að einfalda kerfið, styrkja kerfið sem stofn til skattheimtu. Hv. þingmaður kom jafnframt mjög vel inn á það — hann talaði um eitt þrep og nefndi Danmörku í því samhengi, enda tekjujöfnun skilvirkari í gegnum bein bótaframlög og það skilvirkara að öllu leyti sem jöfnunarfyrirkomulag.

Hv. þingmaður nefndi jafnframt innlegg Samtaka atvinnulífsins og Verslunar og þjónustu og ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að við eigum að skoða það í hinu víða samhengi að taka föt og skó í lægra þrepið. Ég held að það væri mjög jákvætt skref fyrir neytendur og verslun, ég tek undir það. Ég mundi vilja sjá unnið með þær tillögur í framtíðinni.

Ég ætla að skilja eftir hér spurningu fyrir hv. þingmann, af því að hann nefndi eitt þrep, hvernig hann sjái það fyrir sér, það fyrirkomulag, til framtíðar, af því að hann minntist á skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og OECD. Þar hefur verið talað um 20–21%, hvernig hv. þingmaður sjái þetta gerast, í hvaða skrefum, að fara í eitt þrep.