144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Já, eins og ég sagði í minni ræðu hef ég að mörgu leyti — að miklu leyti — skilning á þeim sjónarmiðum að eitt þrep í virðisaukaskattskerfinu væri besta fyrirkomulagið hvað varðar það kerfi. En leiðin þangað liggur ekki bara í gegnum umræðu um virðisaukaskattskerfið og einhverjar þrepahækkanir á matvöru, einhverjar afmarkaðar hækkanir á því, heldur verður að ræða allt skattkerfið í heild sinni og bótakerfið. Það var það sem ég var að segja í ræðunni að ég held að við séum svolítið að vanmeta þátt þeirrar umræðu á þessari leið.

Ég held til dæmis að það sé betri leið til tekjujöfnunar að hafa þrepaskipt tekjuskattskerfi. Ég hafði miklar efasemdir um þrepaskipt tekjuskattskerfi þegar því var komið á og hélt að það mundi auka flækjustig en varði síðan einni nótt inni á Data Market til að reyna að reikna mig að þeirri niðurstöðu að þetta væri óréttlátt, en komst einfaldlega að þeirri niðurstöðu að það var réttlátara að hafa það þrepaskipt. Ég held að það sé kannski að myndast sátt í samfélaginu um það, eða hvað?

Ef menn ætla að láta hjá líða að tekjujafna í gegnum tekjuskattskerfið, og ég tala nú ekki um bótakerfið, og við eigum svolítið langt þar í land líka — ef menn ætla að láta hjá líða að grípa til einhvers konar tekjujöfnunar þar og taka tekjujöfnunina sem er þó líka í þrepaskiptu virðisaukaskattskerfi, þó að hún sé óhagkvæmari, þá endum við náttúrlega með enga tekjujöfnun. Ég meina, við verðum að horfa á heildarsamhengið í þessu.

Ég hef skilning á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þó að ég hafi ekki alveg reiknað mig sjálfur að þeirri niðurstöðu inni á Data Market yfir heila nótt, að þetta sjónarmið, þó að til tekjujöfnunar sé virðisaukaskattskerfið ekki hagkvæmt heldur séu önnur kerfi hagkvæmari — ég held að það sé lykilþátturinn sem (Forseti hringir.) við þurfum að skoða.