144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu og vildi beina til hans nokkrum spurningum vegna þess að hann hefur notið þeirra forréttinda að taka þátt í umfjöllun málsins í nefndinni.

Þá eru það fyrst þau áform sem boðuð eru í greinargerð fjárlagafrumvarpsins, að þetta sé í raun bara fyrri hlutinn eða jafnvel bara fyrsti hlutinn af hækkunum á matarskattinum á kjörtímabili ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks; að á næsta ári verði þetta sem sagt hækkað úr 7% í 11%, eins og sagði strax í fjárlagafrumvarpinu í september, en síðan verði á næsta ári hækkað úr 11% í 14%. Ég spyr hvort fjallað hafi verið um þessar tvær hækkanir í samhengi og áhrif þeirra í heild í nefndinni, eða hvort þar hafi bara verið fjallað um fyrri hluta hækkunarinnar úr 7% í 11%. Eins og við heyrðum hjá hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar hér fyrr í dag, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, þá kemur fyllilega til greina af hálfu Framsóknarflokksins að hækka matarskattinn enn frekar og þá upp í 14% eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu að gerist árinu 2016.

Við erum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að það er mikilvægt að einfalda skattkerfið. Hann benti á að ýmislegt virtist ekki vera til einföldunar, t.d. með akstur hópferðabíla í afþreyingarskyni. Þar kæmi upp ýmiss konar skilgreiningarvandi. Ég vil biðja þingmanninn um að fara aðeins betur ofan í það hvers konar vandamál er þá verið að búa til með þeirri afmörkun og þeirri breytingu á skilgreiningum í virðisaukaskattskerfinu.