144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:42]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi varð ég ekki var við að boðuð hækkun í fjárlagafrumvarpi — eins og hv. þingmaður kom inn á — á matarskatti, frekari hækkun síðar, hafi verið rædd í nefndinni, nei.

Mér þykir það hins vegar forvitnilegt og ég velti því fyrir mér hvernig sú umræða muni líta út. Stjórnarmeirihlutinn hefur að þessu sinni lagt sig mikið fram við að reyna að láta hækkun á matarskatti líta út eins og lækkun á skatti og gripið til alls konar ráðagjörða og málflutnings til að reyna að láta líta svo út. Það verður áhugavert að sjá til hvaða bragða verður gripið á næsta ári til að reyna að láta hækkun á matarskatti úr 11% upp í 14% líka líta út eins og lækkun. Þetta verður bara á allan hátt forvitnilegt. Ég vona að ríkisstjórnin stígi ekki þetta skref, að minnsta kosti var það ekki rætt mikið í nefndinni.

Ég ítreka að mér finnst miklu meiri skynsemi í því að flokkarnir og atvinnulífið setjist niður og efni til miklu víðara samráðs um það hvernig þetta allt saman á að vera. Með flækjustigið — það er ákveðinn draumur um það, held ég, sem margir deila, að í ferðaþjónustunni geti rekstraraðilar búið við þær kringumstæður að vita hvaða prósentu þeir eiga að borga, að þeir borgi bara ákveðna prósentu af starfsemi sinni; þeir þurfi til dæmis ekki að gera greinarmun á hestaferð með leiðsögumanni og hestaferð án leiðsögumanns. (Forseti hringir.) Það eru margir aðilar sem eru á mörkunum að sinna flutningum sem annaðhvort má skilgreina sem afþreyingarferð (Forseti hringir.) eða almenningssamgöngur og slík dæmi voru nefnd fyrir nefndinni.