144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[16:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það væri hægt að halda mjög margar langar ræður um þetta mál sem er hluti af tekjuhlið fjárlaga sem verða á dagskrá á næstu dögum. Það sem mér finnst stinga mest í augu er sá munur sem er á málflutningi fulltrúa stjórnarflokkanna, einstakra fagráðherra, og þeim raunverulegu tillögum sem birtast hér til að mynda. Við höfum áður rætt þetta. Við erum með hæstv. menntamálaráðherra sem boðar að stórefla þurfi læsi. Síðan eru lagðar fram tillögur um efnahagslegar aðgerðir sem miða að því að hækka verð á bókum. Hvernig fer það saman við að efla læsi? Við erum með hæstv. heilbrigðisráðherra sem talar fyrir lýðheilsusjónarmiðum. Svo fáum við tillögu um að afnema sykurskatt, skatt á sykur. Íslendingar borða 50 kíló af sykri á ári og yngstu kynslóðirnar borða víst tvöfalt það magn, eða 100 kíló af sykri. Sykur er sú neysluvara sem Adam Smith lagði einmitt til á sínum tíma í Auðlegð þjóðanna að ætti að vera sérstaklega skattlögð, því auðvelt væri að sneiða hjá sykri, það þyrfti ekki nokkur maður á honum að halda. En við ætlum að afnema sykurskatt. Og ríkisstjórnin sem kynnti sig sem sérstaka ríkisstjórn heimilanna leggur til skattahækkun á heimilin í landinu, skattahækkun upp á 8 milljarða en ekki 11 eins og hún lagði til upphaflega. Allt er þetta pakkað inn í einhverjar umbúðir þar sem fyrst er lagt fram fjárlagafrumvarp með 11% tölu í hækkun á virðisaukaskatti, síðan er sagt að í glærukynningu að talan eigi að vera 12%, svo fylgjumst við með þessu stórkostlega stríði stjórnarflokkanna og að lokum fallast hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem gerðu fyrirvara við frumvarpið sjálft í byrjun — og það er bara ókunnugt að heill annar stjórnarflokkur setji fyrirvara við fjárlagafrumvarp og forsendur þess — á þá málamiðlun sem í raun var búið að skrifa fyrir þá inn í fjárlagafrumvarpið. Ég spurði að þessu í umræðum um stefnuræðu. Þá sagði ég, með leyfi forseta:

„Hver veit nema ástæða þess að virðisaukaskattsþrepið er 12% í glærukynningu hæstv. ráðherra en 11% í frumvarpinu sjálfu sé sú að búið sé að ákveða málamiðlunina milli stjórnarflokkanna og semja leikritið sem á að leika fyrir forviða Íslendinga fram í nóvember. Ég bíð spennt.“

Ég er búin að fylgjast spennt með og þetta fór allt nákvæmlega svona. Nú hef ég horft á mörg leikrit um ævina, hafandi lagt stund á bókmenntafræði, þannig að kannski sér maður betur fyrir endann, af því flest leikrit hafa verið skrifuð, en það sem maður fær á tilfinninguna er að hér sé einhvers konar leikþáttur á ferð þar sem er búið að ákveða málamiðlunina. Okkur er öllum haldið í spennu en síðan er gefið eftir og fólk á að hafa það á tilfinningunni að það hafi grætt eitthvað voðalega mikið, en eftir stendur að í breytingunum felst ekki einföldun. Eftir sem áður eru þrepin tvö rétt eins og þau voru áður og almenningur borgar brúsann. Almenningur borgar brúsann með hærri matarskatti. Því hefur nánast gjörvöll verkalýðshreyfingin andmælt í óteljandi umsögnum sínum um frumvarpið. Eins og bent hefur verið á í umfjöllun um þessa tillögu og hv. þingmenn fóru ágætlega yfir það áðan í ræðum er það svo að þegar við skoðum áhrif gengisbreytinga til lækkunar eða hækkunar á matarverði sýna rannsóknir að lækkunin skilar sér yfirleitt ekki til fulls, en hækkun skilar sér til fulls. Fyrir utan hvað tímasetningin er auðvitað slæm því hv. þingmenn hafa líka bent á það að lækkunin komi beint inn í útsölutímabilið og óvíst að almenningur í landinu fái að njóta þó þeirra lækkana sem eru boðaðar á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins.

Gott og vel. Ég ætla hins vegar ekki að segja að ég leggist alfarið gegn breytingum á virðisaukaskattskerfinu eða ég telji virðisaukaskattskerfið endilega besta tekjujöfnunarkerfið, því fer fjarri. En það sem við þingmenn stjórnarandstöðu hljótum að spyrja um er: Hver er heildarsýnin? Hver er heildarmyndin?

Við höfum heyrt hv. þingmenn stjórnarflokkanna og hæstv. fjármálaráðherra nefna möguleika á því að síðar á kjörtímabilinu verði ráðist í breytingar á tekjuskattskerfinu. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þingmanni sem talaði næstur á undan mér, Guðmundi Steingrímssyni, að þrepaskipt tekjuskattskerfi er líklega besta leiðin til þess að ná fram tekjujöfnunaráhrifum í gegnum skattkerfið. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar ráðist í fyrstu aðgerðina að því leyti með því að afnema auðlegðarskattinn og svipta þar með ríkissjóð 10 milljarða tekjum, afsala í raun almenningi þeim tekjum. Reifað hefur verið að fækka beri þrepum í tekjuskattskerfinu. Þar með er líka horft á minnkandi tekjujöfnunaráhrif í gegnum tekjuskattskerfið sem er stórmál. Þetta er heildarmyndin. En hana höfum við ekki og það er annar hluti af umræðunni að við ræðum þessi mál yfirleitt út frá tilteknum öngum, en ekki heildarmyndinni. Eins og þetta lítur út núna þá tel ég að mótvægisaðgerðir sem felast til að mynda í hækkun barnabóta komi auðvitað ekki til móts við alla. Hækkun á matarskatti mun að sjálfsögðu bitna á almenningi í landinu, kannski síður á barnafólki vegna hækkunar barnabóta en það dugir ekki til. Það dugir ekki til að tefla á móti lækkun á efra þrepi virðisaukaskattskerfisins eða niðurfellingu vörugjalda, því eins og hér hefur margoft verið bent á tekur fólk ekki með sér ísskáp í hvert skipti sem það skreppur út í búð. Vörur sem keyptar eru tvisvar á ævinni eða svo geta ekki komið í staðinn fyrir að hækka virðisaukaskatt á nauðsynjavörum sem hver og einn þarf að kaupa og kemst ekki hjá því að kaupa daglega.

Tíminn er stuttur en mig langar til að nefna sérstaklega sykurskattinn sem ég ræddi aðeins áðan. Ég hef ekki orðið vör við annað á þeim fundum hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem ég hef sótt en að þar hafi menn haft allnokkra samúð með þeim sjónarmiðum sem hafa verið uppi með sykurskattinn. Við horfum upp vaxandi lýðheilsuvanda tengdan aukinni neyslu á sykri. Ætlum við ekki að gera neitt í því nema bregðast við eftir á í gegnum aukin framlög til heilbrigðiskerfisins? Ætlum við ekki að reyna að nýta þá hagrænu hvata sem við höfum yfir að ráða, sem löggjafarvaldið hefur, til að mynda með því að skattleggja sykur sérstaklega til að hvetja fólk til hollari neyslu? Við erum svo sannarlega að fara í þveröfuga átt verði þessar tillögur að veruleika; hærri matarskatt á almennar nauðsynjavörur en burt með sykurskattinn.

Ég tel að við eigum ekki að skirrast við, þegar jafn óyggjandi niðurstöður rannsókna liggja fyrir um skaðsemi sykurs, að nýta skattkerfið og hagræna hvata til að efla forvarnir því við vitum að aukin sykurneysla mun skila sér í auknum kostnaði heilbrigðiskerfisins. Nánast allar þær heilbrigðisstofnanir og samtök sem málið var sent til umsagnar til bentu á þetta. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur til að mynda gefið út nýjar leiðbeiningar um að enn verði hert á takmörkunum á sykurmagni í matvælum úr 10% í 5% af orkuþörf. Að mati stofnunarinnar er mataræði stærsti einstaki áhættuþáttur í heilsu Íslendinga, en 2/3 hlutar dauðsfalla og stór hluti örorku orsakast af sjúkdómum sem tengjast lífsstíl. Við höfum sett reglur um sígarettureykingar. Ég held að flestir sem hafa upplifað þá breytingu sem hefur orðið á skemmtistöðum þessa lands eftir að sígarettur voru gerðar útlægar, þótt margir væru á móti því á sínum tíma, upplifi það sem mjög jákvæða breytingu. Ég held að með því að falla frá sykurskattinum sé verið að fara til baka. Ég held að það sé kolrangt spor hjá ríkisstjórninni.

Það sem mig langar að gera fyrst og fremst að umtalsefni eru hinar skapandi greinar sem ríkisstjórnin segir í stjórnarsáttmálanum að hún vilji leggja sérstaka áherslu á. Hún ætlar að gera úttekt á stöðu skapandi greina. Hæstv. forsætisráðherra sagði í áramótaávarpinu að nú væri unnið hörðum höndum í menntamálaráðuneytinu að sérstakri sóknaráætlun skapandi greina. Ég lagði fram fyrirspurn, virðulegi forseti, líklega fyrir tveimur mánuðum um hvað vinnu við þessa sóknaráætlun liði. Ég hef ekki fengið svar við því frá hæstv. menntamálaráðherra og við höfum ekkert heyrt af þessari sóknaráætlun og desember byrjaður, árið að verða búið. Eina sem við sjáum um sóknaráætlun skapandi greina er hærri skattur á tónlist og bækur. Ég mundi segja að ef þetta væri fótbolti væri þetta lið ekki að fara að vinna. Það er alveg á hreinu. Það skorar alla vega ekki mörg mörk út á þessa sókn.

Við höfum fengið ítarlegar umsagnir, bæði frá fulltrúum tónlistarinnar og bókamarkaðarins. Samkvæmt umsögn frá Félagi íslenskra bókaútgefenda um málið kemur fram að 20 þjóðir Evrópu leggi lægri virðisaukaskatt á bækur en 7%, sem er núgildandi tala. Nú á að hækka skattinn úr 7% í 11%. 20 þjóðir leggja lægri virðisaukaskatt á bækur en 7%. Fimm þjóðir leggja engan virðisaukaskatt á bækur. Einungis þrjár þjóðir Evrópu leggja hærri virðisaukaskatt en 7% á bækur. Í þeim hópi er Búlgaría þar sem læsi mælist lakast í allri álfunni.

Þannig að sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í skapandi greinum og læsi felst í að hækka virðisaukaskatt á bækur. Þannig ætlar ríkisstjórnin að efna læsi. Ég leyfi mér að draga í efa þá aðferðafræði. Ég leyfi mér að draga í efa að þessar tillögu standist — og dreg ekki í efa, það liggur fyrir. Allt sem hefur verið sagt um þessi mál gengur þvert á það sem verið er að gera hér. Orð og gjörðir fara ekki saman.

Við höfum fengið mjög ítarlegar umsagnir frá bæði fulltrúum bókaútgefenda og rithöfunda þar sem m.a. er bent á að bókaútgáfa á undir högg að sækja og hefur átt undir högg að sækja allt frá hruni. Það hefur ekkert gerst sem bendir til viðsnúnings í þeim efnum. Hækkun virðisaukaskatts á bækur geti eingöngu orðið til þess að draga úr eftirspurn með hækkandi verði. Þau kynna hér úttekt frá Oslo Economics, og þá úttekt hef ég lesið, þar sem farið er yfir hvaða áhrif virðisaukaskattsbreytingar hafa haft á útgáfu bóka og sölutölur bóka í ólíkum löndum Evrópu. Þar kemur meðal annars fram að það virðist vera að nýjum útgáfum fækki þar sem virðisaukaskattur hefur verið hækkaður. Þótt bóksala sem slík sé einn mælikvarði þá er annar mælikvarði hvað bókaútgefendur leggja í að gefa út. Við sjáum marktækar tölur frá Lettlandi, minnir mig að það hafi verið frekar en Litháen, þar sem virðisaukaskattur á bækur hækkaði og nýútgáfufjöldi hrundi. Menn fara að sjálfsögðu ekki í einhverja áhættustarfsemi í útgáfu með þennan háa skatt. Við skulum líka átta okkur á því að bókaútgáfa á Íslandi býr ekki við sterka innviði. Hér eru örfá bókaforlög. Stuðningur ríkisins hefur annars vegar falist í því að hafa bókaútgáfu í lægra virðisaukaskattsþrepi og svo í því að styrkja rithöfunda í gegnum listamannalaun, svo verkefnasjóði hinna skapandi greina, en þar er um að ræða Bókmenntasjóð sem hefur þó afmarkað hlutverk samkvæmt lögum. Bókmenntasjóður var skorinn niður í fyrra á fjárlögum þótt mér skiljist að eitthvað eigi að bæta aftur í hann samkvæmt tillögum meiri hlutans. Stuðningur ríkisins við þessi mál fer því fyrst og fremst fram með styrkjum í gegnum þessa sjóði. Listamannalaun eru lögbundin. Þeim þyrfti að breyta ef við ætluðum að bæta við rithöfundalaunum. En skattprósentan, 7%, er hins vegar líka raunverulegur stuðningur.

Í umsögnunum er því líka mótmælt sem hefur verið haldið fram, að af því að hér var einu sinni lagður annar virðisaukaskattur á bókum sé hægt að bera núverandi stöðu við þann tíma. Það er ekki hægt, það er alveg rétt. Þetta umhverfi hefur gerbreyst til að mynda með nýjum miðlunarleiðum, tilkomu rafbóka og annars. Alveg eins og ríkisstjórnin ætlar að berjast fyrir betri lýðheilsu ætlar hún að berjast fyrir læsi, væntanlega með því að draga saman með beinum aðgerðum útgáfu barnabóka og námsbóka. Það er ekki góð aðferðafræði. Ég mundi segja að ríkisstjórnin muni ekki heldur skora mikið í þessari sókn. Við gætum horft upp á það að nýútgáfum fækki. Ég heyri ekki betur en hv. þingmenn Framsóknarflokksins úr efnahags- og viðskiptanefnd sem hér hafa talað taki undir þau sjónarmið. Þeir koma upp og segja: Þetta er áhyggjuefni. Við erum að fara að hækka virðisaukaskatt á bækur og það getur haft veruleg áhrif á læsi. Okkur líst ekki á það.

Virðulegi forseti. Við hljótum að gera þá kröfu að hv. nefnd taki málið aftur til meðferðar milli umræðna. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að ríkisstjórnin ætli að keyra þetta í gegn undir yfirskyni sérstakrar sóknar í skapandi greinum.

Bækurnar hafa verið fyrst og fremst til umræðu þegar við höfum rætt menningarmálin og virðisaukaskattinn, en gagnrýnin á líka við um tónlistina. Tónlistarmarkaðurinn er líklega sá geiri hinna skapandi greina sem hefur átt í hvað mestum erfiðleikum á undanförnum árum vegna nýrra miðlunarleiða tónlistar. Þar hefur skort á að við höfum getað mætt tækninýjungum og framförum, þar hefur skort á að löglegir valkostir hafi í raun verið gerðir auðveldari en hinir ólöglegu út frá höfundaréttarlögum. Þetta er það sem ríkisstjórnin og stjórnvöld ættu að vera að hugsa um, hvernig komum við til móts við þennan geira með raunhæfum aðgerðum. En nei, allir eru voða ánægðir með tónlist. Við erum öll rosalega stolt þegar tónlistarmenn okkar brillera, sérstaklega á erlendri grundu, þá fyrst eru íslenskir stjórnmálamenn glaðir. En hvað ætlum við að gera? Við ætlum að hækka virðisaukaskatt á tónlist.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig þetta fer saman, það sem fólk segir hér og það sem er svo gert. Við ætlum að hækka virðisaukaskatt á hugverk tónlistargeirans. Væntanlega munu þau áform valda því að hagur tónlistarfólks skerðist enn frekar. Og við sem erum alltaf að dásama sköpunarkraftinn, frumkraftinn í íslenskri tónlist, ættum kannski aðeins að hugsa um það að þessi frumkraftur verður ekki til úr engu. Við vitum öll hver staða tónlistarskólanna hefur verið til að mynda á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Tónlistarkennarar eru nýkomnir úr löngu og ströngu verkfalli. Enn er gríðarleg óvissa um rekstrargrunn skólanna. Það er eitthvað sem ég mun gera að umtalsefni við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. En hér er líka reitt til höggs gagnvart þessum geira. Hvernig verður staðan eftir 20 ár? Hvernig verður staðan eftir 20 ár þegar þessar breytingar verða komnar til framkvæmda og þegar við höfum líka horft á stöðuna í skólunum fara niður á við?

Við skulum nefnilega átta okkur á því að sköpun og listir snúast ekki um einhvern frumkraft og snúast ekki bara um að þetta sé svo ógeðslega gaman að fólk sé til í að vinna ókeypis af því frumkrafturinn flæðir upp úr því. Þetta snýst líka um hvers konar umhverfi er búið að þessu fólki. Skapandi greinar veltu 189 milljörðum árið 2009 samkvæmt rannsókn sem þá var gerð í samvinnu nokkurra ráðuneyta. Þarna verða til mörg störf sem einmitt byggjast á einstaklingsfrumkvæði. Það er náttúrlega ekki verið að búa til stórar pakkalausnir eins og sumum stjórnmálamönnum finnst mjög gaman að kynna, heldur er það einstaklingsfrumkvæðið sem fær að njóta sín. Orðspor Íslands hefur breyst á sviði tónlistar, tónlistarhátíðir á borð við Iceland Airwaves taka inn hellingsgjaldeyri, fjölda gesta og við sjáum tónlistarmenn okkar ná gríðarlegum árangri á erlendri grundu. Þetta eru hinar köldu kveðjur stjórnarmeirihlutans til alls þessa geira. Svo er talað um stórsókn á sviði skapandi greina. Þetta er eins og að lesa súrrealískt leikrit, af því ég nefndi nú leikverk ríkisstjórnarinnar í upphafi, hið stórkostlega dramatíska samspil þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þar sem menn grétu í fjölmiðlum yfir hækkun á matarskatti. Svo gáfu þeir eftir og það varð lausn og það varð kaþarsis í anda Aristótelesar. Þetta leikrit er líka annað leikrit sem ég veit ekki hvert stefnir þar sem allt snýst um að gera eitt og segja svo eitthvað annað. Ég hefði haldið að meistarar súrrealismans hefðu verð mjög stoltir af frammistöðu ríkisstjórnarinnar í kringum bæði tekjuöflunina og fjárlagafrumvarpið þar sem allt stangast og rekst hvert á annars horn.

Þetta er nefnilega veruleikinn, þótt manni finnist oft eins og maður sé staddur hér í einhverjum skáldskap. Svo getur maður velt því fyrir sér hvar sannleikurinn sé, hvort hann sé í veruleikanum eða skáldskapnum. Ég held að sannleikurinn sé sá að með þessum frumvörpum er verið að stórauka álögur á heimilin í landinu. Matarkarfa almennings í landinu mun hækka. Hver einasti maður mun finna fyrir þessum breytingum þrátt fyrir þær mótvægisaðgerðir sem eru boðaðar, mótvægisaðgerðir sem snúast ekki um hinar daglegu nauðsynjavörur. Það er alveg sama þótt maður kalli sig ríkisstjórn heimilanna í landinu, það stenst enga skoðun þegar lagðar eru til tillögur á borð við þessar.

Við horfum hér á stórauknar álögur á menningu og skapandi greinar sem enginn treystir sér til að verja, ekki nokkur maður. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem koma hér upp treysta sér ekki til að verja þetta. Þegar ég átti orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um þetta, sagði hann: Það er margt í mörgu og það þarf að spyrja margra spurninga og skoða þessi mál vel. Ég get ekki séð að þeim spurningum hafi verið svarað í nefndaráliti meiri hlutans. Mér heyrist hv. þingmenn sem eiga sæti í efnahags- og viðskiptanefnd ekki hafa svör við þessum spurningum.

Þessar tillögur ganga þvert á stefnumiðin. Það gengur ekki upp að við séum ýmist að ræða fjárlagafrumvarp eða tekjuforsendur fjárlaga og tillögurnar séu í fullkomnu ósamræmi við allar samþykktar stefnur og (Forseti hringir.) allt það sem menn segja annars. Við getum ekki verið í ólíkum hlutverkum eftir því hvaða mál við ræðum. Þetta gengur bara ekki upp, virðulegur forseti.