144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það þarf óvanalega snilld til þess að geta bæði komið fyrir kaþarsis Aristótelesar og súrrealisma Salvadors Dalis í innblásinni ræðu um virðisaukaskattskerfið. Það tókst þó hv. þingmanni giska vel. Þess á milli brá hún sér aðra stundina í kufl bókmenntafræðingsins og hina steypti hún yfir sig ham íþróttafréttaritarans. Hún lýsti sóknarleik Framsóknarflokksins á hendur Sjálfstæðisflokknum, sem miðað við lýsingu hv. þingmanns endaði hverja sóknina með því að skora sjálfsmark. Það er út af fyrir sig töluvert kraftaverk að takast það að vera í sókn upp við mark andstæðingsins en enda alltaf á sjálfsmörkum. Ég deili samt þessari skoðun hv. þingmanns á því hvernig Framsóknarflokknum hefur tekist upp.

Ég minnist þess mætavel þegar hv. þingmaður var hin fyrsta hér í þessum sal til að reka augun í hið sérkennilega misræmi sem kom fram í annars vegar yfirlýsingum um hvernig ætti að hækka matarskattinn af hálfu ríkisstjórnar upp í 12% og hins vegar það hvað stóð í textum sem frá ríkisstjórninni komu. Þar voru 11% alltaf nefnd. Hv. þingmaður lýsti þessari glæsilegu sigurför Framsóknarflokksins eiginlega með þeim hætti að hann hefði barist gegn því að hækka matarskattinn og síðan lýst yfir sigri þegar hann var kominn með hann niður í 11% úr 7%. Framsókn lýsir því sem sagt sem sigursælli lækkun á matarskatti að hækka hann úr 7% í 11%. Ég tek undir með hv. þingmanni að það þarf mikla túlkunargetu til þess.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga: Telur hún þá að þetta hafi allt saman verið leiksýning hjá þingmönnum Framsóknarflokksins?

Í annan stað. Ég var hverju orði sammála sem hv. þingmaður sagði um bókaskatt. Hún fór með sterkar tölur. Fimm þjóðir í Evrópu hafa virðisaukaskatt 0%. Mig langar að spyrja hana, af því ég hef sömu umhyggju og hún fyrir bókmenntum þjóðarinnar: Telur hún ekki að réttast væri (Forseti hringir.) að setja bókaskattinn sérstaklega niður í 0%?