144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að nefndin noti tækifærið á milli 2. og 3. umr. og fari yfir áhrif frumvarpsins á fjölmiðlun í landinu því að það kom fram hér fyrr í umræðunni að það hefði ekki verið gert við undirbúning málsins fyrir 2. umr. Það er alls ekki nógu gott að málið komi til efnislegrar afgreiðslu við 2. umr. án þess að búið sé að fara yfir þau áhrif sem það hefur á jafn mikilvæga starfsemi í landinu og dagblaðaútgáfan er.

Fyrst við erum að ræða stöðu fjölmiðlanna vildi ég fá að misnota aðstöðu mína og spyrja hv. þingmann líka út í aðförina að tekjuöflun Ríkisútvarpsins, þó að það heyri undir annað mál strangt til tekið, og stöðu og sjálfstæði Ríkisútvarpsins í tengslum við það og þær hótunum sem hafa verið hafðar uppi af hálfu stjórnarliða á opinberum vettvangi (Forseti hringir.) gagnvart þeim fjölmiðli.