144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Takk kærlega fyrir mjög góða ræðu sem fjallaði akkúrat um það sem mér er ákaflega kært og ég veit að mjög mörgum öðrum landsmönnum er kært. Það lýtur að næringu fyrir bæði andann og líkamann.

Ég hef pínulitlar áhyggjur af því sem ég heyri nú, að ástandið sé mjög slæmt í menntakerfinu og í ofanálag muni matur væntanlega hækka í mötuneytum skólanna og námsbækur. Mig langaði að spyrja þingmanninn hvort hún telji að það geti haft neikvæð áhrif á getu nemenda til að stunda nám.

Síðan væri gagnlegt að heyra hvort einhverjar mótvægisaðgerðir hefðu komið. Ég veit að þingmaðurinn getur ekki svarað því nákvæmlega, það væri þá frekar einhverjir af þingmönnum meiri hlutans sem gætu frætt okkur um hvort það stæði til að koma með einhverjar mótvægisaðgerðir. Mér sýnist ekki vera mikið um slíkt þegar kemur að andans málum. Ekki hef ég heldur séð mikið af mótvægisaðgerðum sem ég get treyst að skili sér fyrir hina líkamlegu næringu sem allir verða að fá á hverjum degi.

Ég verð að koma að síðari spurningu í næsta andsvari.