144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga hér fram þátt sem ég kom ekki að í ræðu minni en er mjög mikilvægur, sem er einmitt næring unga fólksins og skólamáltíðirnar. Við vitum öll sem eigum börn í skólum að þetta er reikningur á hverjum tíma. Það hefur verið stefna og skoðun míns flokks og minnar hreyfingar að skólamáltíðir eigi að gera gjaldfrjálsar. Það er mikilvægt jöfnunartæki og það er mikilvægt tæki til þess að tryggja öllum aðgang að hollri og góðri fæðu. Þetta hefur verið gert víða í löndunum í kringum okkur. Sumir skólar gripu til þess hreinlega sjálfir skömmu eftir hrun að bjóða upp á hafragraut og annað slíkt, en það er auðvitað önnur umræða. Það sem við hljótum að velta fyrir okkur er hvort hækkun á matarskatti skili sér í hærra verði á skólamáltíðum fyrir fjölskyldur landsins. Það er ekki ólíklegt. Það finnst mér umhugsunarefni. Við hljótum líka að velta því fyrir okkur hvort það að afnema sykurskattinn en hækka matarskattinn eigi eftir að breyta að einhverju leyti næringarinnihaldi skólamáltíðanna.

Ég nefndi hér áðan neyslustýringu sem ég tel að við eigum að vera óhrædd við að skoða innan skynsamlegra marka. Við þekkjum dæmi um skólamáltíðir til að mynda frá Bretlandi þar sem tómatsósa var talin til grænmetis. Til að geta rökstutt holla og góða skólamáltíð var bara sett ótrúlega mikil tómatsósa á matinn og þá var það grænmetisskammtur dagsins.

Alls staðar á Norðurlöndum hefur verið farin sú leið að skattleggja sérstaklega sykur og sætindi. Ég held að við þurfum að skoða þessi mál hér. Vissulega má skoða framkvæmdina á sykurskattinum eins og hann var lagður á, hvort þurfi eitthvað að aðlaga þá framkvæmd og endurskoða, en sjálft viðmiðið, í ljósi þess sem ég sagði hér áðan með sykurneyslu upp á 100 kg á ári hjá yngstu einstaklingunum — hljótum við ekki að velta því fyrir okkur hvaða reikning við erum að senda inn í framtíðina með slíkri sykurneyslu?