144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Stóra málið í þessu er að þessi heildarpakki ríkisstjórnarinnar yfir tekjur og útgjöld mun hafa þær afleiðingar eins og lagt var upp með að matvælaverð hefði þá hækkað um 2,5%. Þetta er það sem fólk hefur mikið gagnrýnt, gagnrýnt hvað mest. Á útgjaldahliðinni er það svo heilbrigðiskerfið. Núna erum við að ræða tekjufrumvarp ríkisstjórnarinnar. Meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd, skattanefndinni, hefur gert breytingartillögur á þessum heildarpakka ríkisstjórnarinnar þannig að í staðinn fyrir að neðra þrep virðisaukaskattsins verði hækkað úr 7% í 12% verður það hækkað úr 7% í 11% sem er samt sem áður hækkun upp á 4 prósentustig. Heildaráhrifin af því verða ekki, eins og Bjarni Ben. sagði þegar pakkinn var kynntur, 2,5% hækkun á matvælum, hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði mér að hún yrði á bilinu 1–2%.

Spurningin er: Væri ekki hægt að koma í veg fyrir þessa hækkun? Er ekki hægt að fara í einhverjar aðrar mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir að matvæli hækki, þessi vara sem fólk neytir á hverjum degi og er í eðli sínu mjög mikilvæg? Maturinn sem fólkið borðar er gundvallaratriði. Eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson segir, við deyjum ef við borðum ekki mat. Það er rétt hjá þingmanninum.

Þá er spurningin: Er eitthvað annað hægt að gera til að ná matvælaverðinu úr 1–2% hækkun niður í 0% hækkun í þessum heildarpakka? Hæstv. fjármálaráðherra kallaði í upphafi umræðunnar um þessi tekju- og útgjaldafrumvörp fyrr í haust eftir samráði um mótvægisaðgerðir. Ég lagðist í það að skoða forgangsröðunina hjá ríkisstjórnarflokkunum varðandi þetta allt saman. Skilvirkara skattkerfi er klárlega eitt veigamesta atriðið í þessu.

Framsóknarmenn töluðu um að þetta ætti ekki að hækka matvælaverðið og hafa fengið í gegn að hækkunin sé ekki upp í 12% heldur 11% nema það hafi verið svoleiðis lagt upp í upphafi, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir nefndi. Kannski sat þessi tala, 11%, upprunalega inni en svo var 12% talan í glærupakka o.s.frv. Kannski er þetta bara „freudian slip“, að menn hafi runnið í fangið á Freud með þetta allt saman, að þetta hafi átt að vera 12% en menn náð að semja þetta niður í 11%. Nú þykir mér líklegra að þetta hafi alltaf átt að vera 11% en það var lagt upp með 12% eins og góðum samningamönnum sæmir, að leggja upp með hærri tölu og geta svo lækkað sig niður og sagt: Sjáið hvað við hlustum vel á ykkur.

Hv. formaður Frosti Sigurjónsson segir að þetta sé rangt, þetta sé bara rangt, en hann var kannski ekkert inni í öllum þessum pakka í samningaviðræðunum bak við tjöldin eins og gerist iðulega í formannaklíkunni. Hann er nefnilega ekki í formannaklíkunni, enda góður og huggulegur maður sem mundi kannski ekki sætta sig við allt sem þarf að sætta sig við í þeim leik.

Er hægt að gera eitthvað annað? — Frosti Sigurjónsson situr ekki undir þessu og rýkur úr sal. Nei, nei, hann er brosandi. — Spurningin er: Er hægt að gera eitthvað annað? Í janúar 2006 kallaði hæstv. þáverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde sællar minningar eftir skýrslu þar sem skoðað skyldi hvernig hægt væri að lækka matvælaverð. Skýrslan heitir Skýrsla formanns nefndar sem forsætisráðherra skipaði 16. janúar 2006 til þess að fjalla um helstu orsakaþætti hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur sem miða að því að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í nágrannaríkjum.

Svo skilaði nefndin hálfu ári seinna af sér skýrslu um það hvernig hægt væri að lækka matvælaverð á Íslandi. Hún skoðaði marga þætti. Niðurstaðan úr skýrslunni er mjög athyglisverð. Nefndin fékk það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig lækka mætti matvælaverð og tvenns konar meginsjónarmið komu fram. Með leyfi forseta:

„Annars vegar er því haldið fram að engin ein aðgerð sé jafn árangursrík til að lækka matvöruverð og að draga verulega úr þeirri innflutningsvernd, sem innlend búvöruframleiðsla nýtur, með því að lækka tolla og rýmka aðgang innfluttrar vöru að innanlandsmarkaði, hvort tveggja svo um munar.“

Þetta er niðurstaðan. Það er ekkert annað, engin ein aðgerð sem hefur víðtækari og betri áhrif en að afnema tolla á matvæli. Er það kannski mótvægisaðgerð sem væri hægt að prófa eða skoða? Ég reyndi að fá upplýsingar um það hvernig hægt væri að heimfæra tölur í þessari skýrslu, sem er frá 2006, upp á núverandi verðlag og núverandi tollaumhverfi og slíkt. Sú vegferð var löng og skilaði ekki miklu vegna þess að þingmenn hafa ekki aðgang að sérfræðingum sem ættu að vera innan borðs hjá Alþingi til að komast að þessum tölum þannig að þeir geti unnið breytingartillögur. Þetta er ekki aðgengilegt fyrir þingmenn. Þingmenn eiga helst ekkert að vera að vinna breytingartillögur við þessi stóru frumvörp ríkisstjórnarinnar. Það er nákvæmlega þannig sem málunum er stillt upp.

Aftur á móti getum við lært ýmislegt af þessari skýrslu. Hvers vegna hefur það svona ofboðslega jákvæð áhrif á verðlag að taka niður innflutningstolla og innflutningskvóta? Í þessari skýrslu kemur fram, með leyfi forseta:

„Sem fyrr segir fylgir tollheimta af matvælum yfirleitt ekki almennum meginreglum heldur er oftar en ekki mjög sértæk.“

Ég ætla aðeins að stíga út úr textanum og benda á eitt, að það sem ríkisstjórnin er að reyna að ná fram í sínum skattbreytingum er skilvirkni og þetta er einn óskilvirkasti skatturinn sem er í boði, og þegar kemur að matvælum sá óskilvirkasti. Þess vegna skilar svo miklum ávinningi að afnema hann.

Svo ég fari aftur inn í textann, með leyfi forseta:

„Hún er aukinheldur mjög misjöfn, bæði vegna áhrifa viðskiptasamninga sem hafa falið í sér tollalækkun á sumum vörum en öðrum ekki, og vegna viðleitni til neyslustýringar með mismikilli álagningu tolla. Þessa sértæku skattheimtu verður að telja óæskilega; hún hefur uppsöfnunaráhrif, brenglar verðhlutföll og veitir verðskjól fyrir samkeppnisvöru. Auk þess mismunar hún framleiðendum með því að veita sumum vernd en öðrum ekki. Um viðleitni til neyslustýringar gilda sömu rök og áður voru nefnd um vörugjald og skattlagningu í efra þrepi virðisaukaskatts, að neikvæð áhrif þessarar skattlagningar á verðhlutföll og verðlag, ekki síst á samkeppnisvöru, vegi þyngra en hugsanleg jákvæð áhrif á neysluvenjur.“

Þetta er eðli þessa skatts. Hverju hefði það skilað neytendum, á verðlagi ársins 2006, í lægra matvælaverði ef alfarið yrðu teknir út tollar og kvótar á matvæli? Það kemur fram í skýrslunni að áætlað er að fullt afnám tollverndar af helstu búvörum mundi skili 9,5 milljörðum. Til samanburðar má nefna að OECD hefur metið að innflutningverndin nemi um 5,9 milljörðum kr. á verði til framleiðenda.

Það sem þetta skilar í vernd fyrir búvöruframleiðendur eru einir 6 milljarðar en það sem neytendur verða af eru 9,5 milljarðar. Við sjáum þessar tölur alveg skýrt, þetta er ofboðslega kostnaðarsöm leið til að styðja innlenda búvöruframleiðslu. Hverjir borga fyrir það? Það eru neytendur sem borga fyrir það með hærra matvælaverði. Það er til mótvægisaðgerð til að lækka matvælaverð núna þegar það á að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins, á matvæli, úr 7% upp í 11%, líka í ljósi þess að á næsta ári, a.m.k. á kjörtímabilinu, eigi að hækka virðisaukann á matvæli úr þá 11% og upp í 14%. Við verðum að fara að líta til þessara mótvægisaðgerða hér. Nú er búið að taka vörugjöldin af matvælum. Það hafði áhrif til lækkunar í þessu og það var vel gert. En með þessu gætum við á sama tíma gert skattkerfið skilvirkara og skilað lækkun á matvælaverði til neytenda. Eins og kemur fram í skýrslunni væri hægt að fara í aðrar aðgerðir til að veita búvöruframleiðendum ígildi tollverndarinnar — en það kostar miklu minna en það kostar neytendur í hærra matvælaverði að hafa þessa tolla. Þetta eru mótvægisaðgerðir sem væri hægt að fara í, sér í lagi í ljósi þess að hv. þm. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, nefndi, m.a. margoft í andsvörum, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að það sé óskilvirkt að tekjujafna með virðisaukaskattinum, það væri betra að gera það í gegnum bótakerfið. Þannig virðast þeir stilla þessu upp hérna að hugmyndin eins og hún var lögð fram mundi vissulega hækka matvælaverð um 2,5% en á móti fengju barnafjölskyldur 11% hækkun á barnabótum sem höfðu verið lækkaðar um 11% í fyrra þannig að það kæmi bara aftur til baka núna. Þetta væri sem sagt það sem kæmi á móti.

Hvað með þá foreldra sem hafa skilið og börnin eiga ekki lögheimili hjá? Hvað með öryrkja, hvað með aldraða, hvað með fullt af minnihlutahópum í samfélaginu sem munu ekki fá þessar bætur? Er ekki rétt hjá mér að það hafi átt að hækka lífeyristryggingar öryrkja um 3,5% en núna eigi þær bara að hækka um 3%? Mótvægisaðgerðirnar eru hriplekar, þær gagnast engan veginn öllum sem þurfa á þeim að halda. Eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar nefnir væri skilvirkara að gera þetta í gegnum bótakerfið, þó að það eigi samt ekki að gera það, en í gegnum virðisaukaskattinn. Það sama á við um ígildi ríkisstuðnings við landbúnaðinn fyrst menn vilja hafa ríkisstuddan landbúnað, og hans flokkur er kannski í broddi fylkingar. Þá skulum við gera það á þann hátt að það sé skilvirkt. Það er ekki skilvirkt að gera það í gegnum matartolla og matarkvóta. Það er skilvirkara að gera það í gegnum bein fjárframlög upp á sem nemur 9,5 milljörðum sem neytendur verða af, á verðlagi 2006, og þurfa að borga í hærra matvælaverði vegna þess að búvöruframleiðendur fá ígildi tollvörustuðnings upp á 6 milljarða.

Þetta er klárlega mótvægisaðgerð sem ég vona að ríkisstjórnin og nefndarmenn efnahags- og viðskiptanefndar líti til. Það væri hægt að samþykkja að taka af alla þessa tolla og alla þessa kvóta og skoða svo hvaða áhrif það hefur. Þetta hefur mjög góð áhrif, það verða aukin umsvif í atvinnulífinu og það kemur fram í þessari skýrslu hérna að það skilar sér til baka, þ.e. það sem ríkið verður af þegar það missir tollinn sjálfan skilar sér til baka á ýmsan hátt. Þessi áhrif væri þá hægt að meta á árinu og sjá svo hvað búvöruframleiðendur þyrftu að fá mikið á móti í meðgjöf í gegnum fjárstyrki frá hinu opinbera sem væri hægt að setja inn í fjáraukalög á næsta ári.

Annað sem kemur fram í þessari skýrslu er staðfesting á öðru, þau sammælast hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónssyni, um virðisaukaskatt á matvælum. Það er eitt af því sem þau nefna, að virðisaukaskattur leggst á endanlegt vöruverð á síðasta stigi viðskipta. Skatturinn er því hlutlaus, þ.e. hann veldur ekki uppsöfnunaráhrifum og brenglar ekki verðhlutföll eins og gildir um vörugjald og tolla. Þarna kemur þetta fram um samanburðinn milli virðisaukaskatts og vörutolla á matvæli.

Svo kemur samantekt um að greina megi fjórar meginástæður fyrir álagningu tolla á innflutt matvæli:

1. Vernd fyrir innlenda búvöruframleiðslu. Búvöruframleiðendur gætu fengið ígildi fjárstyrks í staðinn fyrir að fá það sem ígildi tollverndar sem brenglar verðlag og kostar neytendur, þ.e. þetta er mjög óskilvirkur skattur eins og við höfum farið yfir.

2. Vernd fyrir aðra innlenda framleiðslu, svo sem sælgætisgerð og fóðurblöndur.

3. Neyslustýring, þ.e. að tollum er beitt til að draga úr eftirspurn eftir vörum sem taldar eru óhollar eða óæskilegar.

4. Tekjuöflun ríkissjóðs.

Ég held að við séum búin að fara yfir það hvaða áhrif þessir þættir hafa. Það sem ríkið verður af í tekjum, samkvæmt þessari skýrslu, skilar sér til baka og rúmlega það. Það sem neytendur græða — er hvað? Það eru 9,5 milljarðar á móti þessum 6 milljörðum sem tollverndin skilar sér til búvöruframleiðenda.

Upprunalega hugmyndin að mótvægisaðgerð sem við fórum af stað með var einhvern veginn á þann hátt að þær hækkanir á matvælaverði sem þessi heildarpakki ríkisstjórnarinnar mundi skila, afnám tolla á matvæli, mundi lækka það að einhverju leyti og svo mundum við sjá hvernig aukin umsvif o.s.frv. mundu skila sér í auknum tekjum til ríkissjóðs. Svo væri hægt að taka það og eitthvað sem mundi skila sér eins og það að hægt væri að hækka virðisaukaskattinn örlítið ef matvælaverðið mundi lækka meira, væri undir 0%, þannig að það mundi gera skattkerfið enn þá skilvirkara. Eins og ég segi hafa þessar tölur allar saman ekki skilað sér í hús.

Að lokum má spyrja hvaða áhrif þetta hefði í peningum. Heimilisútgjöld á verðlagi 2006 hefðu lækkað við það að afnema alla tollvernd, alla tolla á matvæli og kvóta, um að meðaltali 82 þús. kr. Hvað kostar matarkarfan meðalheimili í dag, hvað eru matarinnkaup mikil á mánuði, er einhver með þá tölu? Nei. Ef við færum þetta upp í verðlagið í dag er þetta að minnsta kosti mánuður á ári sem það mundi lækka mín matarútgjöld. Heill mánuður er ekki lítið. Við höfum prósentutölur líka í þessari skýrslu og þar kemur fram að verð á matvöru mundi lækka um 15,6% þannig að menn geta skoðað það. Það er náttúrlega ekki alveg eins umhverfi í dag og þá en gefur einhverja hugmynd. Vísitala neysluverðs, a.m.k. á þeim tíma, hefði lækkað um 2,2%, (Forseti hringir.) sem skilar sér aftur að verulegu leyti inn í verðtryggðu húsnæðislánin.