144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[17:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður velti hér fyrir sér mögulegum mótvægisaðgerðum eftir atvikum gagnvart þessum breytingum eða til að stuðla að lækkun matvælaverðs. Það er í sjálfu sér gott og gilt að menn ræði það, hvort sem þeir vilja ræða það beinlínis í tengslum við áform ríkisstjórnarinnar um hækkun matarskatts eða bara almennt. Að sjálfsögðu kemur ýmislegt þar til álita og margt fleira að mínu mati en hv. þingmaður nefndi. Tökum bara sem dæmi þau svæði landsins þar sem matvælaverð er sannanlega hæst og svo miklu munar. Hvar er það? Það er í strjálbýlinu, í dreifbýlinu, sérstaklega á þeim svæðum þar sem ekki eru lágvöruverðsverslanir sem hafa þá verðstefnu að hafa sama verð um allt land. Þar er verslun rekin við mjög erfiðar aðstæður, vöruverð hátt og fullur flutningskostnaður kominn á vöruna áður en virðisaukaskatturinn er reiknaður út í lokin þannig að meira að segja virðisaukaskatturinn er þar hærri í reynd.

Við getum velt fyrir okkur hver virðisaukaskatturinn á endaverði vörunnar á Bakkafirði ætti að vera bara til að vera hlutlaus, vera jafngildi í peningum því sem hann er í Bónus. Það væru sennilega ekki nema 16, 18% á efra þrepið, kannski 4% eða 5% á neðra þrepið. Þá væri í raun og veru sama krónutala komin inn í virðisaukaskatt á útsöluverði vörunnar. Svo miklu hærra er verðið oft orðið áður en kemur til útreiknings virðisaukaskatts.

Það væri hægt að horfa til kostnaðar aðfanga í matvælaframleiðslu í landinu. Tökum raforkuverð til garðyrkjubænda, ýmis önnur aðföng í landbúnaði. Það er hægt að ná árangri í því að gera matvælaverð ódýrara með ýmsum hætti og öðrum og að mínu mati nærtækari en þeim að horfa bara til þess að fella niður tollvernd. Það eru miklar ofsögur sagðar af henni þegar haft er í huga að stærstur hluti matvæla sem fluttur er inn (Forseti hringir.) til Íslands er algjörlega ótollaður. Allar nýlenduvörur, ávextir og annað slíkt sem ekki er framleitt á Íslandi er án tolla. Ég held að menn séu stundum að magna þetta dálítið upp fyrir sér þegar þeir líta á það sem (Forseti hringir.) stóru aðgerðina.