144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og ekki síður fyrir að rifja upp tillöguflutning okkar í Samfylkingunni frá 2006, sem tengist þessu málefni.

Það alvarlega við þessar stórfelldu skattahækkanir á nauðsynjar sem heimilin þurfa eru hinar hjárænulegu mótvægisaðgerðir sem lúta að því að lækka gjöld á allt öðrum vöruflokkum en verið er að hækka skattana á, þ.e. matnum sjálfum. Þar er oft verið að lækka gjöld á vöru þar sem verðlagningin byggir ekki á kostnaði við framleiðslu heldur ræðst af staðsetningu vöru á markaði. Varan mun kosta alveg það sama eftir breytinguna og áður, varan er kannski verðlögð á 9.980 vegna þess að það er staðsetning á markaði, eða 999.000 af því það er staðsetning hennar á markaði og skiptir litlu hver vörugjöldin eru fyrir eða eftir.

Sú mótvægisaðgerð sem gæti kannski að einhverju leyti mætt hækkun á matarskatti, ef menn vildu skoða einhverjar slíkar æfingar, er auðvitað það sem þingmaðurinn nefnir, niðurfelling á tollum á innflutta matvöru. Í fyrstu umferð hljóta menn þá að horfa sérstaklega á hvíta kjötið, kjúklinginn einkanlega, því það er jú ekki hefðbundinn landbúnaður, það fyrst og fremst iðnframleiðsla á höfuðborgarsvæðinu sem er með stærstan hluta af þeim markaði en ekki hefðbundinn búrekstur um hinar dreifðu byggðir landsins. Ég er sammála hv. þingmanni um að þetta mundi skila okkur langmestum árangri.

Telur þingmaðurinn að ef ráðist væri í verulegar tollalækkanir mætti rökstyðja það að hækkun á almennu virðisaukaskattsprósentunni væri réttlætanleg, ef tollar á matvöru væru á móti felldir niður að verulegu leyti?