144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég óskaði eftir því að veita hv. þingmanni andsvar þegar hann var að ræða hér virðisaukaskatt á bækur, sem ég gerði einmitt að umtalsefni í ræðu minni áðan, af því að hann vitnaði sérstaklega til tungumálsins. Ég er hjartanlega sammála honum. Við á Alþingi samþykktum málstefnu. Í fyrsta sinn var samþykkt þingsályktunartillaga um málstefnu fyrir Ísland þar sem sérstaklega er vitnað til þess að bókmenntir hljóti að vera sú listgrein sem sé tengdust tungunni. Hv. þingmaður og fleiri nefndu kvikmyndir sem eru að því leytinu til líkar bókmenntum að þar er verið að segja sögur.

Í málstefnunni stendur að orðin og tungumálið séu í senn efniviður bókmenntanna og verkfæri og því hafi verið haldið fram „að bókmenntir séu almennt forsenda þess að fámennar þjóðtungur geti lifað af“ og að ástæða þess að við tölum enn íslensku, ríflega 300 þúsund, sé að við höfum haft sagnahefðina, fornsögurnar, sem varð í raun til þess að tungan lifði af þrátt fyrir erlend áhrif.

Það er umhugsunarefni þegar við ræðum um læsi undir öðrum málum því að þegar við ræðum læsi og erum bara að ræða læsi þá eru allir sammála um að það sé mjög mikilvægt að efla bókaútgáfu og hafa nóg framboð af alls konar lesefni fyrir börn og ungmenni svo að þau geti ræktað þennan hæfileika og varðveitt og eflt tungumál okkar, en síðan þegar við skiptum um umræðuefni og förum að ræða tekjuöflun ríkissjóðs og virðisaukaskatt þá er eins og hitt hafi gerst í einhverjum hliðarveruleika og við séum búin að gleyma því sem við sögðum um læsi.

Eins og ég hef farið ítrekað yfir í umræðum um þetta mál þá sýna dæmin að þar sem virðisaukaskattsprósenta hefur verið hækkuð á bækur hefur nýútgefnum bókum fækkað. Það er umhugsunarefni hvaða áhrif þetta mun til að mynda hafa á barnabækur. Ég vildi spyrja hv. þingmann af því að hann fór ekki nákvæmlega út í það: Hvaða áhrif telur hann að hækkuð (Forseti hringir.) virðisaukaskattsprósenta geti haft á bókaútgáfuna sem slíka og þar af leiðandi (Forseti hringir.) á læsi?