144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og kem hingað upp til að spyrja hann út í frumvarpið.

Þetta frumvarp er ekki mikið, það er ekki stórt í sniðum, það er fjórar greinar. Við höfum nú séð stærri frumvörp hér, en það hefur verið til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd í hartnær þrjá mánuði. Það kemur til af því að Framsóknarflokkurinn eins og hann lagði sig setti fyrirvara við hækkun matarskatts úr 7% í 12% og hefur nú afgreitt málið út af því að hann hækkar ekki úr 7% í 12% heldur úr 7% í 11%. Það virðist vera í lagi og horfir Framsóknarflokkurinn þar fram hjá þeirri grimmilegu forgangsröðun sem fram kemur í frumvarpinu.

Það er verið að lækka efra þrep virðisaukaskattsins og það er ágætt enda var það orðið ansi hátt, og það er verið að lækka vörugjöld. Minn flokkur, Samfylkingin, hefur verið hlynntur slíkri lækkun. En skattalækkanir af þessum toga er ekki hægt að gera á kostnað matarinnkaupa almennings á Íslandi. Framsóknarflokkurinn lítur fram hjá því út af þessu eina prósentustigi.

Meiri hluti nefndarinnar segir í lok síns nefndarálits að hann hvetji stjórnvöld, aðila vinnumarkaðar og hagsmunasamtök til að taka saman höndum og tryggja að skatta- og gjaldalækkanir frumvarpsins skili sér að fullu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi trú á að sú fróma ósk meiri hlutans verði að veruleika.