144. löggjafarþing — 39. fundur,  2. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[18:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í stuttu máli hef ég ekki mikla trú á því, nei. Eins og fram hefur komið hér í ræðum margítrekað og er augljóst ef maður lítur á markaðsöflin og hvernig þau hljóta að virka þá skila skattalækkanir sér seinna og síður inn í verðlag en skattahækkanir. Ástæðan er sú að þegar skattar hækka þarf kaupmaðurinn að hækka verð ef hann er að reyna að hafa verðið eins lágt og mögulegt er, en þegar skattalækkun verður þá er hann þegar með viðskiptavini sem eru vanir fyrra verði og þeir koma ekki til með að hætta að versla við hann svo auðveldlega þótt hann lækki ekki verðið. Ég tala nú ekki um þegar maður býr í verðbólgusamfélagi eins og á Íslandi þar sem fólk er ekki bara vant því að verðið standi í stað heldur frekar vant því að það hækki. Það kemur fyrir af og til að maður hugsar með sér: Það er nú svolítið langt síðan hamborgarinn á þessum stað þarna kostaði eitthvað minna en hann kostar núna. Þá getur maður svo sem spáð fyrir um að hann muni hækka mjög bráðlega vegna þess að þannig er Ísland.

Ég hef afskaplega litla trú á því að þessar skattalækkanir muni skila sér, alla vega ekki hratt. Ég get að vísu tekið undir það að vissulega hamli skattalækkanir hækkun á verðlagi til lengri tíma. En ég veit ekki hvernig yfirvöld ættu að hvetja til þess, ég skil þann þátt ekki alveg. Eigum við að biðja kaupmenn um að lækka verðið? Hvers vegna ættu þeir að gera það? Það er ekki í takt við skilning minn á markaðsfræðum, þótt minn skilningur á því sviði sé reyndar ekki beinlínis sérfræðiþekking.

Ég get ekki svarað fyrir Framsóknarflokkinn, hvers vegna honum hefur snúist hugur eða hvernig hann hagar sínum málum. Ég get sagt það um þetta mál sem og mörg önnur, með fullri virðingu fyrir þeim ágæta flokki. Og þótt þetta frumvarp sé mjög stutt þá er hægt að gera ansi mikið með stuttum frumvörpum. Við munum frumvarpið sem kom í fyrra sem átti að afnema náttúruverndarlögin með einni setningu, það þurfti ekki meira en það. Það er því engin mótsögn milli þess að gera mjög litla lagabreytingu sem krefst mikillar umræðu, hvort sem er í nefnd eða hér eða í þjóðfélaginu eða veldur bara almennt miklum usla.